Ýmislegt

Tónlist

Við vitum öll hvaða áhrif tónlist hefur á okkur sjálf,  hún hefur í raun ótrúleg áhrif á skap okkar og líðan. Það má hressa sig aldeilis við með því að hlusta á jákvæða og peppandi tónlist og að sama skapi getur tónlist með þungum tónum og neikvæðum textum dregið úr manni mikla orku.

Börn eru engin undanteknig og tónlist hefur mikil áhrif á þau líka, hröð og hressandi tónlist tjúnar þau meira upp og róleg tónlist róar þau. Á okkar heimili er spilað mikið af tónlist og öll börnin mín 4 elska tónlist, þau hafa öll snemma fengið áhugann og dillað sér mikið í takt og haft gaman af.

Sá yngsti er þar engin undantekning og hann hreinlega elskar tónlist og t.d. í sumar þegar við vorum mikið á ferðalagi varð hann stundum leiður á að sitja í bílnum. En þá nægði að setja uppáhaldslögin hans á og gleðin tók völd. Tónlistin sem hefur verið vinsælust hjá honum til að dansa og dilla sér við er Adventure of a lifetime með Coldplay, Dönsum eins og hálfvitar með Friðriki Dór,  Love yourself og Sorry með Justin Bieber, Just can´t stop the feeling með JT og í allra mesta uppáhaldi er Work from home með Fifth Harmony 🙂

Hér fylgir gott dæmi um það að hann getur ekki hlustað á tónlist án þess að dilla sér með

https://www.instagram.com/p/BKPN1F2hQsc/?taken-by=irispeturs

 

En eins og það er auðvelt að ná upp stuðinu hjá honum með hressri og skemmtilegri tónlist þá er líka auðvelt að róa með rólegri og þægilegri tónlist. Þar er í algjöru uppáhaldi hjá okkur mæðginum platan Vögguvísur með Hafdísi Huld. Við hreinlega elskum þessa plötu!! Á hverju kvöldi þegar hann fer að sofa kveiki ég á tónlistinni og hann situr í fanginu á mér og knúsar mig meðan við hlustum á fyrstu lög plötunnar og ég veit bara fátt betra. Hann fer svo í rúmið sitt og sofnar út frá ljúfum söng Hafdísar Huldar. Hann hlustar oft á plötuna þegar hann fer í vagninn út að sofa og ef hann er þreyttur í bílnum finnst honum voða gott að hlusta líka.

Það kemur oft fyrir á miðjum degi að ég kveiki á Vögguvísum og þá kemur hann alltaf í fangið til mín og situr hjá mér og knúsar. Alveg greinilegt hvað hann tengir þessa tónlist við mömmufang, knúserí og vellíðan.

Ég get hreinlega ekki mælt nóg með plötunni hennar Hafdísar Huldar, held hún fáist á geisladisk í verslunum en við hlustum alltaf á Spotify.

001

Textarnir og söngurinn er svo fallegur og erfitt að gera upp á milli laga en Ljós, Nóttin læðist inn og Þú ert eru uppáhadslögin mín enda einstaklega falleg og ég tengi svo við textana. Mér finnst bara fátt dásamlegra en að sitja með litla barnið mitt í fanginu, loka augunum, finna ilminn úr hálsakotinu hans, hlusta og njóta. Það er nefnilega svo mikilvægt að staldra aðeins við og njóta!