Ýmislegt

Sumarið

Sumarfríið er hafið hjá grunnskólabörnum landsins og fljótlega komast leikskólabörnin og vonandi foreldrarnir líka í langþráð frí. Sumarfríið er (mis)langur tími sem er góður til að skapa saman dýrmætar og skemmtilegar minningar. Mikilvægt er samt að njóta stundarinnar og hversdagsleikans, því í raun er það hversdagsleikinn sem skipar stærstan sess í lífi okkar flestra. Við megum ekki alltaf vera að bíða eftir stóru viðburðunum og gleyma að njóta í núinu. Því þetta snýst jú ekki um áfangastaðinn heldur ferðalagið.

Fyrir nokkrum árum síðan dró ég fram stórt blað og bað börnin að teikna það sem þau langaði að gera í sumarfríinu sínu. Þau fylltu blaðið af allskyns hugmyndum bæði stórum og smáum, því sem brýtur upp hversdagsleikann og svo stærri hugmyndum sem kröfðust bæði ferðalaga og kostnaðar.
Blaðið var svo hengt upp á vegg og notað sem hugmyndabanki að einhverju skemmtilegu sem við fjölskyldan gerðum saman það sumarið. Þessi hugmynd sló svo í gegn að þetta hefur verið gert ár hvert síðan.

Ég sýndi einmitt smá frá því um daginn þegar mín 4 voru að teikna á blað sumarsins í Story á Instagram, endilega fylgist með þar, því þar kemur eitthvað skemmtilegt inn flest alla daga.

Ég mæli með að þið prófið þetta heima hjá ykkur og sjáið hvaða skemmtilegu hugmyndir barnið/börnin ykkar koma með.

Þetta er eitthvað af því sem við fjölskyldan munum gera saman í sumar og skapa um leið dýrmætar og dásamlegar minningar.