1 árs +,  Fyrir alla fjölskylduna,  Nestisboxið

Smoothie

Við gerum smoothie alveg ótrúlega oft í allskonar útgáfum, og það er alltaf rétti tíminn fyrir smoothie, hvort sem það er í morgunmat, hádegismat, millimál, eftirrétt eða jafnvel stundum í kvöldmat. Smoothie sem er vel samsettur gefur nefnilega helling af orku og næringu. Smoothie er í raun leynivopnið mitt til að koma næringu í börnin þegar þau eru lystarlaus t.d. þegar þau eru lasin. Það kemur líka alveg fyrir að þessi elstu séu á hraðferð á morgnana og stundum hafa þau litla lyst snemma á morgnana og þá er þessi tilvalinn til að skella í sig, þau taka líka stundum svona með sér í nesti í skólann.

Þessi hér er ótrúlega ferskur og góður, hafrarnir gefa fyllingu í magann og trefjar, hamp- og chia fræin veita omega 3 og 6 fitusýrur ásamt andoxunarefnum og vítamínum. Skyrið gefur gott prótein og berin og anansinn eru rík af c vítamíni.

1 bolli frosin jarðaber
1/2 bolli frosin hindber
1/2 bolli frosinn ananas
1/2 bolli skyr (ég nota hreint)
1/4 bolli haframjöl eða 1/2 bolli kaldur hafragrautur
1 msk hampfræ
1 tsk chia fræ
5-6 dropar vanillustevía t.d. frá GoodGood (má sleppa en er gott á móti súru skyrinu)
1/2 bolli eplasafi

Allt sett í blandara og blandað vel.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is