Sætkartöflu vöfflur
Þessar vöfflur eru dásamlegar á bragðið og fullkomnar fyrir lilta munna, þær eru passlega mjúkar að innan og örlítið stökkar að utan. Fullar af góðu hráefni, góðar á bragðið, góðar fyrir börn á öllum aldri og fullorðna.
1 bolli hveiti
1/2 bolli heilhveiti
1 bolli hafrarmjöl (sett í blandara/matvinnsluvél og gert fínna)
3 tsk lyftiduft
1 1/4 tsk kanill (ceylon kanill)
1/8 tsk sjávarsalt
2 egg
1 bolli kókosmjólk
1/2 bolli AB mjólk
40 g smjör, brætt
1/2 bolli sæt kartöflu mauk (sætar kartöflur gufusoðnar og maukaðar með smá soðvatni)
3 tsk Sukrin Gold
Byrjað er á að búa til sætkartöflumauk sé það ekki þegar til í ísskápnum, en það er gert með því að flysja sætar kartöflur, skera í smáa bita og gufusjóða í uþb. 20 mínútur eða þar til auðvelt er að stinga í þær með gaffli. Maukað með töfrasprota og smá soðvatni. Látið kólna í ísskápnum.
Blandið vel saman, hveiti, heilhveiti, haframjölinu, lyftidufti, kanil og salti. Hrærið saman við eggjunum, kókosmjólkinni, AB mjólkinni, bræddu smjörinu, sætkartöflu maukinu og Sukrin Gold þar til allt er vel blandað saman. Látið bíða á meðan vöfflujárnið er hitað.
Ég nota alltaf belgískt vöfflujárn (á reyndar ekkert annað) og finnst það henta fullkomlega í þetta. Það er gott að búa til 2 stærðir af vöfflum, minni sem hentar liltum fingrum og þá set ég bara smá slettu í miðjuna á vöfflujárninu, fyrir stærri vöfflurnar fyrir þau eldri set ég svo vænni slettu eða bara eftir smekk.
Hér sést munur á stærðunum sem ég geri, þessar hægra megin fara vel í litlar hendur.
Vöfflurnar er góðar einar og sér sem fingramatur fyrir lítil börn, með ávöxtum og agave sírópi eða hunangi (fyrir börn sem eru eldri en 12 mánaða) eða jafnvel með smjöri og osti. Um að gera að láta hugmyndaflugið ráða.
Geymast 4 daga i ísskáp og 3 mánuði í frysti. Ég á alltaf svona í frystinum og gríp í, skelli í brauðristina í smá stund og þá eru þær volgar og fínar.
Minnsti minn er alltaf ánægður með þessar vöfflur
Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

