1 árs +,  9+ mánaða,  Afmælisveislan,  Nestisboxið

Pizzu bitar í nestisboxið

_mg_1853

Að útbúa spennandi nesti fyrir börnin í skólann er alveg meira en að segja það stundum. Á okkar heimili er lagt mikið uppúr því að þau fari með ávexti og grænmeti með sér. En þau tauta nú stundum um það að “allir” hinir fái að koma með brauðmeti eða annað með sér í nesti. Það er því gaman að bjóða stundum uppá einhverja tilbreytingu í nestisboxið.

Ég spyr börnin gjarnan hvað þau langi að taka með sér og 9 ára sonur minn svarar nánast alltaf því sama: “Pizzu”, enda er hann forfallinn pizzu aðdáandi drengurinn.

Ég ákvað því að búa til nestisvæna pizzu og útkoman sló í gegn meðal allra á heimilinu, meira að segja gat sá minnsti bara alls ekki beðið með að smakka á meðan ég tók myndir eins og sjá mátti á Instagram um daginn.

2 grófar brauðsneiðar (ég notaði Lífskorn, þetta í grænu pokunum)
Hakkaðir tómatar/pizzusósa*
Skinka ( ég nota alltaf með 98% kjöti frá Stjörnugrís)
Ostur
Það má vel setja grænmeti á milli líka og í þetta skiptið settum við smá pepperoni líka á helminginn, eitthvað sem á samt að fara sparlega með, amk.fyrir ung börn.

Brauðsneiðarnar eru flattar vel út með kökukefli, sósan sett á og og áleggið, hin brauðsneiðin ofan á. Bakað í ofni við 200°c í 5-7 mínútur, eða þar til osturinn er bráðnaður og brauðið orðið dálítið crispy.

Skorið eins og pizza í litlar “sneiðar” sem auðvelt er að stinga með í nestisboxið. Minnsti minn rétt rúmlega 1 árs var ótrúlega ánægður með þetta þegar hann loksins fékk að smakka og gerði sér lítið fyrir og kláraði allar sneiðarnar með skinkunni. Þetta er því eitthvað sem hiklaust er hægt að gefa litlu börnunum t.d. í hádeginu.

Ég nota alltaf þessa sósu á pizzu og lasagna, hún er frá Gestus og fæst í Krónunni. Er í glerflösku (eitthvað sem ég elska) og inniheldur ekkert nema tómata, örlítið salt og svo eitthvað eitt rotvarnarefni, semsagt eins hrein og hægt er fyrir keypta sósu. En tilbúnar pizzusósur innihalda mjög oft, sykur, og fullt af einhverjum óþarfa.