
Bisfenol A
Bisfenol A (BPA) telst til varasamra efna samkvæmt Umhverfisstofnun og er á lista Evrópusambandsins yfir möguleg efni sem raskað geta hormónajafnvægi.
Efnið er notað í mjög mikið notað og er eitt af mikilvægustu byggingarefnunum í pólýkarbonplasti (PC) sem er hart, glært og brothelt plast sem þolir háan hita. BPA er notað í PVC plast til að gera efnasambönd þess stöðug og einnig í ýmsar epoxý vörur.
BPA er flokkað sem ertandi og ofnæmisvaldandi við snertingu við húð og getur haft áhrif á frjósemi. Efnið getur raskað hormónajafnvægi og hefur skaðleg áhrif á lífríki vatns.
BPA er td. notað í:
- Pólýkarbonatplast sem t.d. er notað í matvælaílát og umbúðir, leikföng, rafbúnað og raftæki, geisladiska, pela, skjöld á snuðum ofl..
- PVC-plast, t.d. gólfefni
- Epoxývörur, t.d. málning, lím, lakk.
- Kassakvittanir og posastrimla (hitanæmur pappír)
Í dag er mikil vitneskja um BPA en þó er deilt um áhrif efnisins í neytendavörum vegna mismunandi túlkunar á niðurstöðum vísindarannsókna og þá helst hversu mikið magn af efninu þarf til að hafa skaðleg áhrif. En rannsóknir á dýrum benda til þess að BPA sé skaðlegt þó efnið sé í mjög litlu mæli.
Ákveðnar reglur gilda um BPA í vörum sem komast í snertingu við matvæli eins og plastpoka, þar sem ákveðið magn af efnunum má leka úr vörunni.
BPA er bannað í barnapelum hér á landi og í Danmörku, en þar er efnið einnig bannað í öllum vörum sem tengjast matvælum fyrir börn yngri en 3 ára.
Harði hutinn/skjöldurinn á sumum snuðum er framleiddur úr pólýkarbonplasti sem gefur frá sér BPA. Samkvæmt dönsku umhverfisstofnuninni gefa snuðin þó frá sér miklu minna af efninu en pelar og ætti því ekki að óttast það að barn noti slík snuð. En fyrir þá sem vilja forða börnum sínum frá því að fá BPA úr snuðum er hægt að velja snuð sem búin eru til úr öðru efni en pólýkarbonati. Það þarf þó að vera vakandi við valið því í sumum tilfellum er ekki gefið upp á umbúðum úr hverskonar plasti snuðin eru frameidd og er því betra að velja snuð þar sem fram kemur hverskonar plastið er.
Flest allar kassakvittanir og posastrimlar eru prentaðir á hitanæman pappír sem inniheldur BPA. Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Danmörku árið 2011 sýndi sig að efnið berst til okkar með því að taka við kassakvittun, en þó í litlu mæli og skv. niðurstöðum rannsóknarinnar þykir ekki ástæða til að óttast. Fyrir þá sem vilja hafa varann á er hægt að gera eftirfarandi: afþakka kassakvittanir, taka ljósrit af þeim sem þarf að eiga, þvo hendur eftir að hafa snert kvittanirnar og ekki leyfa börnum að leika með kassakvittanir eða posastrimla.
Þó BPA sé að finna í litlu mæli í flestum neytendavörum þá er efnið samt sem áður að finna í mjög mörgum hlutum sem við notum á hverjum degi. Það er því fyllsta ástæða til að forðast BPA eftir bestu getu til að minnka líkurnar á þeim skaða sem það er talið geta valdið, og þá sérstaklega þegar kemur að börnunum okkar.
Heimildir:
http://www.ust.is/einstaklingar/graenn-lifsstill/varasom-efni/#Tab1
http://mst.dk/borger/kemikalier-i-hverdagen/kend-kemikalierne/bisphenol-a/