
Salt
Það er vitað mál að Íslendingar borða of mikið salt, bæði börn og fullorðnir. Börn eiga að innbyrða takmarkað magn af salti, sérstaklega þau yngstu vegna þess að nýru þeirra eru ekki nægilega þroskuð til að geta skilað miklu salti frá sér. Það er heldur ekki gott að venja börn á saltbragðið því þá eru þau líklegri til að sækjast frekar í saltan mat, líka á fullorðinsárum.
Salt má finna í fjölmörgum fæðutegundum og stærstur hluti saltsins sem börn og fullorðnir innbyrða eða um þrír fjórðu kemur úr unnum matvörum, svo sem unnum kjötvörum, brauði, osti, áleggi, sósum, pakkamat og skyndibita. Það er því ekki nóg eingöngu að sleppa því að salta matinn heldur þarf einnig að forðast saltríkar vörur.
Ráð til að minnka saltneyslu:
- Útbúa sem flestan mat frá grunni og sniðganga tilbúinn mat.
- Takmarka notkun á salti við matargerð.
- Skipta út morgunkorninu fyrir hafragraut og heimagert múslí.
- Mikilvægt er að lesa á umbúðir og vanda valið við innkaup.
- Velja skráargatsmerktar vörur því þær innihalda yfirleitt minna salt.
- Vara telst saltrík ef það eru meira en 1.25g af salti í 100g
- Vara telst saltlítil ef það er minna en 0.3g af salti í 100g
Það er stundum snúið að lesa utan á umbúðir því oft er magnið af natríum (sodium á ensku) gefið upp en ekki saltmagnið sjálft. Það er til einföld formúla til að reikna út saltinnihald:
salt = natríum (sodium) x2.5
Ef vara inniheldur t.d. 500mg natríum í 100g þá samsvarar það 1250mg eða 1,25g af salti í 100g.
Heimildir:
http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item26965/7%20stadreyndir%20um%20salt.pdf
http://www.landlaeknir.is/skodadusaltid/
http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item19314/Vid-bordum-of-mikid-salt