
Kalk
Kalk er lífsnauðsynlegt næringarefni og er mikilvægt að börn fái nóg af því. Kalk er nauðsynlegt fyrir vöxt og viðhald beina og tanna. Auk þess er það mikilvægt fyrir myndun ensíma í líkamanum, samdrátt vöðva, stjórnun hjartsláttar og storknun blóðs. Kalkskortur getur aukið líkur á beinþynningu seinna á lífsleiðinni. Það er því mikilvægt fyrir alla að fá nóg af kalki alla ævi.
Ráðlagður dagskammtur af kalki
0-6 mánaða: Börn fá á þessu tímabili nægt kalk úr móðurmjólkinni eða þurrmjólkurblöndu. Bæði inniheldur rétt magn af kalki sem börn á þessum aldri þurfa. Þess vegn er ekki uppgefinn ráðlagður dagskammtur af kalki fyrir þennan aldurshóp.
6-11 mánaða börnum er ráðlagt að fá 540 mg af kalki á dag. Börn á þessum aldri fá kalkið sem þau þurfa úr blöndu af móðurmjólk/þurrmjólk og fjölbreyttu matarræði.
12-23 mánaða börnum er ráðlagt að fá 600 mg af kalki á dag. Þar sem mjólkurvörur eru kalkríkar er neysla á þeim auðveld leið til þess að uppfylla daglega kalkþörf. Takmarka ætti neyslu á mjólkurvörum við 500 ml á dag þ.m.t. mjólk, jógúrt, súrmjólk og skyri. En það nægir til að uppfylla daglega kalkþörf.
2-5 ára börnum er ráðlagt að fá 600 mg af kalki á dag. Borði barnið fjölbreytta og holla fæðu er stór hluti kalkþarfarinnar uppfylltur með því. Með neyslu á mjólkurvörum samhliða er daglegri kalkþörf uppfyllt.
6-9 ára börnum er ráðlagt að fá 700 mg af kalki á dag. Með fjölbreyttri fæðu og neyslu á mjólkurvörum samhliða er daglegri kalkþörf uppfyllt.
Ef börn fá mjólkurlaust fæði eftir 1 árs þurfa þau að fá kalk með öðrum hætti, sem svarar til 600 mg á dag. Kalk má bæði taka sem bætiefni en einnig er það að finna í dökku grænmeti og öðrum fæðutegundum.
*Upplýsingar um RDS eru fengnar frá Landlæknisembættinu (2013).