Fiskur

Fiskur er hollur, það vitum við öll. Hann inniheldur mikið D-vítamín, joð og selen. Auk þess inniheldur fiskurinn hollar fiskiolíur, omega 3 og omega 6.

Börn ættu að byrja að fá fisk frá 6 mánaða aldri (frá 9 mánaða amk. tvisvar í viku) og best er að bjóða uppá fjölbreyttar fisktegundir s.s. ýsu, þorsk, lax, rauðsprettu, löngu ofl. Það eru svo margar frábærar fiskbúðir sem hægt er að kíkja í og kaupa ljúffengan og girnilega fisk. Endilega skoðaðu úrvalið í fiskbúðinni í þínu nágrenni.
Fiskinn má sjóða, gufusjóða eða matreiða í ofni en æskilegt er að bíða með steiktan fisk þar til barnið er orðið 9 mánaða. Gætið þess mjög vel að fjarlægja öll bein úr fiskinum.

Í nágrannalöndum okkar er ekki mælt með að gefa börnum yngri en 14 ára túnfisk (steikur), sverðfisk né hákarl vegna þess að þessar fisktegundir geta verið mengaðar af kvikasilfri. Eins er ekki ráðlagt að gefa börnum undir 3 ára túnfisk úr dós. Eftir 3 ára aldur er í lagi að gefa þeim 1 dós á viku. Hins vegar stafar okkur Íslendingum ekki mikil hætta af kvikasilfri úr fiski skv. Umhverfisstofnun því það hefur ekki mælst í miklu magni í hafinu í kringum landið né í fiskinum okkar.

ATH. samkvæmt heimasíðu embætti Landlæknis og þessum bæklingi  er óhætt að byrja að gefa börnum fisk þegar þau eru 7-8 mánaða gömul. Ungbarnaverndin mín vísaði í ofangreindan bækling snemma árs 2016 þegar ég var að byrja að gefa yngsta mínum að borða. Það ber að taka fram að þessi bæklingur er sá sami og ég fékk afhendann þegar ég eignaðist mitt annað barn fyrir 10 árum síðan og hefur upplýsingunum í honum ekkert verið breytt. Þessi bæklingur er því töluvert úreltur að mínu mati þegar tekið er mið af nágrannaþjóðum okkar sem hafa breytt sínum ráðleggingum hvað varðar næringu ungbarna töluvert síðan þessi bæklingur var gefinn út.

Á sama tíma og ungbarnaverndin mín vísaði í þennan bæking voru þær einnig að ræða um breyttar áherslur og nú ætti að byrja að gefa börnum alla fæðu strax í kringum 6 mánaða og jafnvel fyrr. Svona misræmi er voðalega hvimleitt og villandi fyrir marga. Mér hefur því alltaf þótt best að styðjast við efni frá dönskum heilbrigiðisyfirvöldum því það efni er mjög áreiðanlegt, góðar og viðamiklar rannsóknir liggja að baki allra þeirra ráðleggingum og þær eru uppfærðar árlega og jafnvel oftar eftir því sem niðurstöður rannsókna liggja fyrir.

Heimildir:
http://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/naering/ungborn/
http://www.ust.is/umhverfisstofnun/umraedan/grein/2013/02/20/Kvikasilfur/
https://www.sst.dk/da/sundhed-og-livsstil/ernaering/~/media/95768E2BB49D4D72B1DB08E1B314B05F.ashx
http://altomkost.dk/nyheder/nyhed/nyhed/fokus-paa-boern-og-fisk/