Arsen

Hrísgrjón og vörur framleiddar úr þeim geta innihaldið arsen og er því mikilvægt að takmarka neyslu á slíkum vörum fyrir lítil börn. Þá er átt við vörur á borð við hrísgrjónin sjálf, grjónagraut, hrískex (poppkex), hrísmjólk ofl.

Hrísmjölsgrautar hafa hérlendis verið vinsælir sem fyrsta fæða og er engin ástæða til að útiloka þá en mikilvægt er að hafa fjölbreytni í vali á ungbarnagrautum og velja aðra grauta í bland, svo sem úr hirsi, bókhveiti, höfrum, rúgi eða byggi.

ATH. Arseninnihald er alveg óháð því hvort hrísgrjón eru lífrænt ræktuð eða ekki.

Arsen er frumefni (þungmálmur) sem er mjög eitrað, en í raun skiptist það í tvennt, lífrænt og ólífrænt arsen. Það lífræna sem finnst t.d. í sjávarafurðum er ekki eitrað en það ólífræna sem finnst t.d. í kornvörum og þá sérstaklega hrísgrjónum getur verið skaðlegt heilsunni sé þess neytt í miklu mæli.

Arsen hefur verið sett í samband við krabbamein í húð, lungum, lifur, nýrum og blöðru. Það er á lista yfir krabbameinsvalda hjá Alþjóðakrabbameinsstofnunni (IARC).

Heimildir:
http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item20406/Ráðleggingar%20vegna%20þungmálma%20og%20steinefna%20%C3%AD%20barnamat_Mast%20og%20EL_23.05.2013.pdf
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=64310