Öllebröd
Öllebröd eða øllebrød eins og það heitir á dönsku er mjög vinsælt að gefa börnum í Danmörku enda Danir þekktar rúgbrauðsætur. Öllebröd hefur líka verið vinsælt hjá öllum mínum börnum. Í Danmörku er notað rúgbrauð í öllebröd en ég hef notað maltbrauð hérna heima. Íslenska seydda rúgbrauðið sem við þekkjum hentar ekki vegna þess að það inniheldur ALLT of mikinn sykur og öll dönsku rúgbrauðin hér á markaði virðast flest ef ekki öll innihalda kjarna sem ekki er hentugt fyrir lítil börn.
Þetta er sáraeinfalt að búa til og ég hvet ykkur til að prófa
2 sneiðar maltbrauð
1 1/2 dl vatn
1/2 dl brjóstamjólk, þurrmjólkurblanda eða stoðmjólk
1 tsk fita
Brjótið brauðið í litla bita og setjið í pott ásamt vatninu, látið brauðið drekka vtanið í sig í 15 mínútur, ef brauðið drekkur allt vatnið í sig bætið þá örlitlu við. Kveikið á hellunni og látið suðuna koma upp og svo á þetta að malla í 2-3 mínútur. Takið af hitanum, bætið mjólkinni útí og maukið með töfrasprota þar til áferðin er slétt. Þynnið með meiri mjólk ef þurfa þykir og bætið fitunni út í.

