Núðlur í nesti
Núðlur eru frábær matur til að hafa í vikulok því út í þær má nýta ýmsa afganga og það sem til er í ísskápnum. Tilvalið sem nesti í vinnu eða skóla og þær eru alls ekki síðri kaldar.
Það er hægt setja hvað sem hugurinn girnist út í og krydda með ýmsum kryddum, en hér ætla ég að deila vinsælustu samsetningunni á okkar heimili:
1 pakki eggjanúðlur
3 egg
Kjúklingur, eldaður, magn eftir smekk
1 Rauðlaukur, skorinn í þunnar ræmur
Gulrætur, skornar í þunna strimla, magn eftir smekk
2-3 tsk sesamolía
Olía til steikingar, góður slatti
Vatn sett í pott og suðan látin koma upp, slökkt undir og núðlurnar settar útí og látnar bíða. Á meðan er olían hituð á wok pönnu, eggin brotin útí og hrært vel í á meðan þau steikjast (scrambled eggs). Grænmeti og kjöt sett útí og hrært vel í meðan þetta hitnar allt saman vel. Vatninu hellt af núðlunum og þeim bætt útá pönnuna, sesamoliu bætt við og kryddað með salti og pipar eftir smekk og öllu hært vel saman.
Það er mjög gott að hafa örlitla sweet chili sósu með þessu líka.
Svona var innihaldið í nestisboxinu hjá elstu stelpunni minni núna fyrr í vikunni og hún alsæl með þetta. Gaffallinn er úr bambus og því mjög léttur í skólatöskuna og engir beittir gaddar sem annars geta skemmt töskuna sjálfa eða aðra hluti sem í henni eru. Þó þetta sé í raun ætlað litlum börnum þá er mjög gott að borða með þeim og er þetta staðalbúnaður í skólatöskunum hjá börnunum mínum 9 og 12 ára.

