Morgunverðar kleinuhringir
Kleinuhringir í morgunmat? Já afhverju ekki!….það má alveg þegar þeir eru stútfullir af orku og næringu eins og þessir. Þeir eru flottir á bröns borðið, sem millimál, eftirréttur eða í barnaafmælið.
Granóla
1 1/2 bolli tröllahafrar
Lúka af kókosflögum
1/8 tsk kanill
3 msk Sweet Like Syrup frá Good Good
1 msk kókosolía
1 tsk vanilludropar
Frostþurrkuð jarðaber eða hindber (má sleppa)
Blandið höfrum og kanil saman í skál, myljið kókosflögurnar aðeins og bætið saman við.
Setjið sírópið, kókosolíuna og vanilludropana á pönnu á rúmlega miðlungshita og hrærið þangað til að allt er bráðnað saman. Hellið þurrefnunum út á pönnuna og blandið öllu vel saman. Lækkið aðeins hitann og leyfið blöndunni að ristast í uþb. 10 mín eða þar til granólað er ljós gullið, en hrærið reglulega í á meðan svo ekkert brenni við.
Hellið á bökunarpappír og látið kólna alveg. Blandið frostþurrkuðum jarðaberjum eða hindberjum saman við eða jafnvel rúsínum, mórberjum eða hverju sem ykkur dettur í hug.
Skyrblanda
3 dl hreint skyr
1 msk Sweet Like Syrup frá Good Good
1/4 tsk vanilludropar
2 msk Jarðaberjasulta frá Good Good
2 msk Bláberjasulta frá Good Good
Spirulinaduft á hnífsoddi (má sleppa)
Hrærið vel saman skyri, sírópi og vanilludropum og skiptið blöndunni jafnt í 3 skálar. Bætið svo jarðaberjasultunni í eina skál og bláberjasultu í aðra og hrærið hverja blöndu fyrir sig vel saman. Ef þið viljið ná fram ljósgræna litnum er sett örlítið af spirulina dufti í þriðju skálina og hrært vel, annars má alveg sleppa því og hafa bara hvítt.
Dreifið dálitlu af granóla í kleinuhringjaform eða mini muffins form, og setjið svo til skiptis skyrblöndu úr hverri skál til að fylla upp í hvert hólf. Sett í frysti í amk 3 klst.
Gott að bera fram með ferskum ávöxtum. Afgangurinn af granólanu geymist í vel lokuðu íláti í nokkrar vikur og gott að njóta út á AB mjólkina, skyrið eða smoothieskálina.
Færslan er unnin í samstarfi við GoodGood en það en það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is

