Mána sandur
Mána sandur er eitthvað sem börn hafa mjög gaman af að leika með og er frábær skynjunar upplifun. Það er hægt að dunda tímunum saman við að fikta, mylja, þjappa, móta kúlur eða fígúrur, notast við útstungumót til að mót allskyns form, möguleikarnir eru óteljandi.
Það er ótrúlega einfalt og fljótlegt að búa hann til og það besta er að innihaldsefnin eru fá og til á flestum heimilum. Innihaldsefnin eru líka öll ætileg svo mjög ung börn sem eru sí smakkandi á öllu geta líka leikið sér með mána sandinn og það gerir ekkert til þó þau laumi smá í munninn.
Það er hægt að hafa mána sandinn hvítan (sandurinn verður alveg hvítur ef notuð er kókosolía) eða gera hann hvernig sem er á litinn, það má bæta í hann glimmeri (köku glimmeri fyrir þau sem eru enn að smakka) og jafnvel ilmkjarna olíu til að auka enn frekar á önnur skynjunar áhrif (þegar börnin eru hætt að smakka).
Mánasandur
Hráefni
- 4 bollar hveiti
- 1/2 bolli olía, sólblóma-, repju-, kókos- eða ólívuolíu bara það sem þið eigið til
- Matarlittur, má sleppa
Aðferð
- Byrjið á að setja olíu og matarlit í skál og hrærið fyrst einum bolla af hveitinu út í og blandið mjög vel þannig að þetta verður lituð leðja.
- Ef nota á glimmer eða ilmkjana olíu þá þarf að bæta því við út í leðjuna núna.
- Bætið svo einum bolla af hveiti í einu út í blönduna og hrærið mjög vel saman á milli.
- Hrærið/hnoðið þar til sandurinn hefur fengið jafna áferð og og lit.
- Það er smá kúnst að fá matarlitinn til að lita sandinn, en ef þetta er gert svona tekst það mjög vel.
Í fyrsta sinn sem ég gerði þetta setti ég öll hráefnin saman í skál og hrærði, en matarliturinn blandast ekki við olíuna svo hann settist allur í örlitlar kúlur þannig að sandurinn varð eiginlega doppóttur og litaði svo hendurnar þegar byrjað var að leika með sandinn.
Mána sandurinn geymist í loftþéttu íláti svo hægt er að nota hann aftur og aftur. Við geymum okkar í vel lokuðum ziplock poka.
Ef þú prófar þetta með þínum börnum þætti mér ótrúlega vænt um ef þú myndir deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais, merkja myndina með @infantia.is eða einfaldlega senda mér skilaboð❤️

