Ferðalög,  Ýmislegt

London

Eins og einhverjir kannski sáu á Instagram um daginn þá eyddi ég nokkrum dögum í London í lok ágúst og byrjun september og ætla aðeins að segja ykkur frá þeirri ferð og svara um leið þeim helstu spurningum sem mér bárust.

Þetta var í raun dansferð með Dagbjörtu elstu dóttur okkar (14ára) en hún hefur æft dans í að verða 9 ár og stefnir ekki á neitt annað en að verða atvinnudansari. Þetta var í annað sinn sem við mæðgur förum saman í dansferð, en gerðum það einmitt í ágúst í fyrra líka.

Andrea besta vinkona Dagbjartar var með í för ásamt mömmu sinni svo þetta var stelpuferð eins og þær gerast bestar.

Við vorum í 5 nætur og gistum á Travelodge London Covent Garden og  ég get svo sannarlega mælt með þessu hóteli, enginn íburður, hreint og fínt með allt sem þarf til að gera dvölina góða, en fyrst og fremst er staðsetningin algjörlega geggjuð! Covent Garden er draumastaðurinn okkar í London og dansskólinn sem Dagbjört dansar í er í 3 mínútna göngufæri frá hótelinu, gerist ekki betra. Stutt í tvær  underground stöðvar eða tube eins og Bretinn kallar það, Holborn og Covent Garden, nokkurra mínútna labb á Leicester Square, Trafalgar Square og Oxford Street er líka í göngufæri.

Okkur langaði að skoða ýmislegt og versla aðeins á milli þess sem stelpurnar dönsuðu af lífi og sál. Eins og alltaf þegar ég fer erlendis er ég búin að rannsaka vel hvað er vert að sjá skoða og upplifa og plana vel, en auðvitað komumst við ekki yfir allt sem okkur langaði að gera. En hér er það helsta sem við gerðum.

Oxford Street sem að væntanlega allir London farar kannast við, er mjög gaman að rölta bæði að degi til og kvöldlagi, kíkja í búðir og sjá mannlífið.

Leicester Square iðar alltaf af lífi, bæði dag og nótt og þar er ótrúlega gaman að vera, hvort sem það er bara til að rölta um, fá sér eitthvað gott að borða, kíkja í búðir eða bara setjast niður og sjá mannlífið og njóta góða veðursins ef maður er svo heppinn.

það var svona gaman hjá okkur allan tímann <3

Hyde Park er risastór og ofsalega fallegur, það var glampandi sól og steikjandi hiti þegar við heimsóttum hann og fullt af fólki. Þarna er hægt að leggjast í sólina, setjast og horfa á mannlífið, fara á bát út á vatnið eða ganga eða hjóla um. Vel hægt að eyða þarna stórum hluta úr degi.

South Bank liggur meðfram ánni Thames og þar er gamana að labba um, þar safnast mikið af götulistamönnum og alltaf fullt af fólki.

London Eye er líka staðsett í South Bank og ég mæli svo sannarlega með ferð í það, þó það gæti tekið smá tíma að bíða í röð er það svo sannarlega þess virði því útsýnið yfir borgina þaðan er magnað.

Waterloo Bridge og aðrar brýr yfir Thames River er gaman að rölta yfir og sjá borgina þaðan.

China Town er eins og að stíga inn i allt aðra borg,  allskyns litlir götusalar með ýmsa furðulega ávexti og grænmeti og einhvern veginn allt öðruvísi umhverfi en annarsstaðar í kring.

Kings Cross er vinsæl hjá Harry Potter aðdáendum en þar er Platform 9¾ sem allir sem séð hafa myndirnar ættu að kannast við. Hægt er að láta taka mynd af sér á leiðinni í Hogwarts og þar er að finna mjög flotta verslun með allskyns Harry Potter varningi. Lestarstöðin sjálf er líka mjög falleg og leiðir til allra átta.

Covent Garden er einstaklega skemmtilegur hluti London sem ég mæli með að allir heimæski. Allt iðandi af lífi, fallegar byggingar og litlar götur með skemmtilegum verslunum. Þar er Pineapple dansskólinn líka staðsettur ásamt Bloch og Capezio sem eru uppáhalds verslanir margra dansara.

Covent Garden Market er mjög skemmtilegt að heimsækja og þar má finna heilan helling af litlum fallegum búðum og veitingastöðum. Það ættu allir að gera sér ferð þangað sem eru á ferð í London.

Uppáhalds makkarónu búðin mín

Moomin búðin er eitthvað fyrir alla sanna Moomin aðdáendur

Trafalgar Square er annað torg sem iðar svo sannarlega af lífi, götulistamenn og allskyns fólk. Gaman að setjast þarna niður og fylgjast með mannlífinu.

Dansinn var auðvitað aðalmarkmið ferðarinnar og í raun toppurinn, Pineapple er einstakur staður og algjör draumur dansarans og dansmömmunnar líka. Þarna er ógrynni af danstímum í boði af mismunandi erfiðleikastigi, við allra hæfi, allir mögulegir dansstílar og kennararnir eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Þarna kemur fólk á öllum aldri, allt upp í rígfullorðið fólk, af öllum þjóðfélagsstigum og frá öllum heimshornum til að dansa saman og að sjá fjölbreytileikann er algjörlega einstakt. Sjálf get ég  þvælst þarna um allan daginn og horft á tíma, og leiðist aldrei.

Dagbjört fór líka í einkatíma hjá upphálds dansaranum sínum Ricky Jinks, en hann kom í dansskólann hennar sl. vetur og hélt workshop, hún algjörlega heillaðist af honum og einstaka dansstílnum sem hann hefur og ég lái henni það ekki. Ég setti mig í samband við hann og þessi einkatími var hluti af fermingargjöfinni hennar.

Þetta er upplifun sem hún mun aldrei gleyma og að sjá hana upplifa þetta var einstakt. Ef einhvern langar að sjá meira af dansinum hennar er hægt að fylgjast með henni á Instagram @dancebjort og sjálf er ég nokkuð dugleg að setja inn danstengt efni á mitt Instagram @irispeturs.

Það sem við gerðum í fyrra og ég get mælt með:
Hop on/off double decker bus, Dagbjörtu langaði svo í svoleiðis strætó og við fórum rúnt um borgina, sátum á eftri hæðinni í góðu veðri og sáum margt áhugavert og skemtilegt, þetta er samt tímafrekt sökum umferðar en samt sem áður mjög skemmtilegt.
Tower Bridge er eitt af einkennum London og er ótrúlega falleg
Big Ben eitt allra helsta kennileiti London og mjög gaman að sjá hann, að vísu ekki um þessar mundir þar sem turninn er í viðgerð og verður næstu árin. Í ágúst í fyrra sló hann í síðasta sinn í 4 ár.

Það sem okkur langar að gera í næstu ferð:
Sky Garden er þriggja hæða  innanhúss almenningsgarður með mögnuðu útsýni yfir London.
Camden Market er risastór og víðfrægur markaður með allskyns handverk, fatnað og fylgihluti og góðan “street food”.
The Shard  er fallegur gler skýjakljúfur og er hæsta bygging í Bretlandi með magnað útsýni yfir borgina.
Gönguferðir um South Kensington og Notting hill

Ef þú ert á leið til London njóttu þá, borgin er án efa ein af mínum allra uppáhalds!