Heimatilbúinn leir
Börnin mín elska að leira, sérstaklega þau 2 yngstu. Það er svo ótrúlega þægilegt og einfalt að búa leirinn bara til heima, í hvaða lit sem óskað er eftir, með glimmeri fyrir þá sem það vilja og hann er auðvitað alveg laus við allan óþverra.
Tala nú ekki um hversu miklu ódýrari hann er…..og betri líka!
Þetta tekur án gríns aðeins örfáar mínútur, svo á skömmum tíma er hægt að búa til leir í öllum regnbogans litum.
1/2 dl salt
1 tsk cream of tartar
1/2 bolli hveiti
1/2 bolli vatn
1 1/2 tsk olía
matarlitur
glimmer ef vill (ég nota kökuglimmer)
Þurrefnin sett í pott og blandað vel saman. Matarliturinn settur út í vatnið og bætt út í pottinn á samt olíunni. Þetta er svo allt hrært saman og hitað á miðlungshita. Mikilvægt er að hræra stöðugt í blöndunni. Það geta myndast kekkir en bara merja þá úr með sleifinni og halda áfram að hræra. Blandan þykknar hratt og þegar hún er farin að safnast saman í klump utan um sleifina er klumpnum skellt á bökunarpappír. Mesti hitinn látinn rjúka úr og svo hnoðað örlítið saman og voilà! Tilbúinn leir.
Leirinn er svo geymdur í loftþéttu íláti eða zip lock pokum. Ef hann byrjar að þorna eftir mikla notkun eða hefur staðið of lengi á borði er bara að skella klumpnum undir krannann og bleyta aðeins, hnoða vel saman og þá er hann eins og nýr.
Ef þú prófar þetta með þínum börnum þætti mér ótrúlega vænt um ef þú myndir deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais, merkja myndina með @infantia.is eða einfaldlega senda mér skilaboð ❤️

