1 árs +,  Afmælisveislan,  Fyrir alla fjölskylduna,  Nestisboxið

Kókoskúlur

Kókoskúlur er eitthvað sem flestum þykja góðar, svona passlega stór munnbiti, sætur og ljúfur, eða það þykir okkur hér heima allavega. Hefðbundnar uppskriftir innihalda oftast mikinn sykur svo ég ákvað að prófa mig aðeins áfram með kúlur sem innihalda engan hvítan sykur, aðeins döðlur sem sætu.

Útkoman er ótrúlega góð og þær runnu ljúft niður í heimilisfólkið í gær þessar.

100 g döðlur (Meedjol eru bestar en alveg hægt að nota þurrkaðar líka)
1 1/2 dl haframjöl
1/2 dl kókosmjöl
2 msk hreint kakó
1/4 tsk vanilluduft (hrein vanillukorn, ekki vanillusykur)
1 tsk kókosolía
3 msk vatn
Kókosmjöl til að velta kúlunum uppúr

Ég átti ekki Medjool döðlur svo ég notaði bara þurrkaðar, klippti þær niður í nokkra bita og lagði svo í bleyti í kalt vatn í 30 mínútur, vatninu hellt af og þá eru þær klárar. Öll innihaldsefnin sett í matvinnsluvél og unnið mjög vel saman þar til þetta er orðinn fínn massi.
Kúlur mótaðar og velt uppúr kókosmjöli, sett í kæli í 1-2 tíma og þá eru þær tilbúnar.
Geymast í kæli í vel lokuðu íláti í 2-3 daga

Afþví að þessar innihalda engan hvítan sykur og í raun enga óhollustu þannig lagað (þó þær séu orkumiklar) þá má alveg lauma eins og einni með í nestisboxið fyrir krakkana ásamt grænmeti og öðru hollu nesti svona einu sinni og einu sinni til smá tilbreytingar.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is