1 árs +,  6+ mánaða,  9+ mánaða,  Fyrir alla fjölskylduna,  Nestisboxið

Kjötbollur

Þegar ég var yngri og heyrði orðið kjötbollur, voru kjötfarsbollur alltaf það fyrsta sem mér datt í hug, enda þekkti ég ekki aðrar en slíkar, ýmist steiktar á pönnu eða soðnar með hvítkáli, þótti þær góðar þá en hef aldrei eldað slíkar sjálf og borða ekki í dag. Þegar ég fluttist til Danmerkur kynntist ég nefnilega alvöru kjötbollum eða “frikadeller” og höldum við mikið upp á slíkar á okkar heimili.

Þessi uppskrift hefur fylgt mér frá því við bjuggum í Danmörku, er ljúffeng og ótrúelga einföld, því bollurnar eru bakaðar í ofni, ekkert snúa vesen á pönnu eða slíkt.

500 g nautahakk (endilega nota alveg hreint hakk)
1/2-1 laukur, fer eftir stærð (ég nota alltaf rauðlauk)
1-2 hvítlauksrif
50 g gulrætur (rifnar)
1 egg
1 dl haframjöl
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
1/2 tsk Eðalkrydd eða önnur góð kryddblanda

Laukurinn hakkaður mjög smátt, hvítlaukurinn pressaður og gulræturnar rifnar með rifjárni. Öllu blandað vel saman í hrærivél. Mótaðar eru litlar bollur og settar á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Mér finnst best að móta kjötbollur í höndunum, bleyti hendurnar með köldu vatni inni á milli svo það loði minna við hendurnar, en auðvitað er hægt að gera þeað með skeið líka.

Sjálf er ég alltaf hrifnari af litlum og fíngerðum mat framyfir stóran og groddaralegan og móta ég bollurnar því frekar litlar ( rúmlega kirsuberjatómatur á stærð).
Bakað við 180°c á blæstri í uþb. 20 mínútur, fer eftir stærð. Borið fram t.d.með hverskyns kartöflum, sósu og salati.

Það er voða gott að eiga poka af kjötbollum í frystinum og ég hef stundum freistast til að kaupa tilbúnar í poka en þær bara standast aldrei væntingar, hvorki nægilega góðar né með nógu vönduðu innihaldi, því miður inniheldur keyptur tilbúinn matur oft allskyns óþarfa. Þessar henta mjög vel til að eiga í frystinum og grípa til þegar nennan til að elda er lítil eða tíminn er naumur. Þá er tilvalið að baka bollurnar út úr ofninum eftir 15 mínútur og skella í frystinn. Bollurnar eru svo teknar úr frystinum, skellt á plötu og fulleldaðar á 5-10 mínútum við 180°c á blæstri.

Bollurnar eru líka mjög ljúffengar kaldar, í raun alls ekki síðri og henta því vel í nestisboxið í bland við ávexti, grænmeti, brauðmeti eða núðlur t.d.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is