1 árs +,  9+ mánaða,  Fyrir alla fjölskylduna,  Nestisboxið

Jarðaberja smoothie

 

Margir smoothie-ar eru eiginlega bara innantóm orka, sérstaklega þeir sem innihalda nánast eingöngu ávexti og standa því ekki sérlega lengi með manni. En þessi er frábrugðinn því hann inniheldur bæði AB mjólk, hafragraut og chia fræ sem gerir hann því sérlega næringarríkan og saðsaman. Hann hentar því vel sem millimál bæði fyrir börn og fullorðna, t.d. fullkominn eftir skóla eða leikskóla í staðinn fyrir “drekkutímann” eða í nesti í skólann, mín börn eru td. mjög hrifin af því að taka þennan með sér í nesti.

2 bollar frosin jarðaber
1 vel þroskaður banani
1 bolli kaldur hafragrautur* eða 1/2 bolli hafrar (mér þykir mikið betra að nota hafragraut)
1 bolli AB mjólk
1 tsk chia fræ (má sleppa)

Allt sett í blandara og blandað vel, lang best að drekka strax en ef það er afgangur er ekkert að því að geyma restina í kæli og njóta síðar.

Í raun inniheldur þessi smoothie allt sem þarf til að uppfylla fullkomna máltíð nema fitu, en það má auðveldlega bæta úr því og smella smá kókos- eða hörfræolíu út í, ég geri það stundum.

Þessi uppskrift hentar vel fyrir 1 fullorðinn og 1 barn eða 2-3 ung börn.

*Mér finnst voða gott að eiga kaldan hafragraut í ísskápnum til að nota t.d. í smoothie, vöfflur, lummur eða bara til að hita upp og borða í amstri dagsins og því elda ég yfirleitt rúmlega á morgnana og á þá graut til að grípa í. Mæli svo sannarlega með því!