Byrjunin

Nokkrar góðar ástæður fyrir því að búa barnamatinn til heima!

_MG_2038Ég hef oft fengið þá spurningu í gengum tíðina hvers vegna ég sé að standa í þessu “veseni” við að búa til mestallan mat ofan í börnin mín sjálf þegar það er svo auðvelt að grípa tilbúinn mat úr hillum verslana. Svarið má finna hér 🙂

Bragð, lykt, litur og áferð
Heimatilbúinn matur bragðast betur. Það er bara þannig með allan mat, ferskur matur úr gæða hráefnum bragðast betur en matur sem getur staðið á hillu í marga mánuði eða jafnvel ár án þess að skemmast. Barnamauk úr krukku eða skvísu er oftast bæði bragdaufara og miklu sætara en það sem ég geri hérna heima sjálf. Það er yfirleitt mjög þunnt og með alveg slétta áferð (sem hentar börnum sem eru að byrja að borða vel) og liturinn daufari líka. Með því að búa til mauk sjálf er hægt að ráða hversu þykkt það er, hvort það eru kekkir í því osfrv. en það er einmitt mikilvægt að venja börn við mismuandi áferð.

Geymsluþol
Tilbúinn barnamat er oftast hægt að geyma í fleiri fleiri mánuði og allt upp í 2-3 ár. Mér finnst ekki ákjósanlegt að gefa barninu mínu mat sem er eldri en það sjálft

Næringargildi
Til þess að maturinn endist svo mánuðum eða árum skiptir þurfa framleiðendur að hita hráefnin svo gríðarlega mikið að næringarefni tapast í ferlinu.

Þú veist hvað maturinn inniheldur
Með því að búa til matinn sjálf/ur veit ég nákvæmlega hvað er í matnum, engin aukaefni, engin uppfylliefni, ekkert óþarfa vatn. Ég get stjórnað samsetningunni algjörlga, blandað saman ávöxtum og grænmet, kjöti, fiski, bætt við kryddi eða korntegundum, haft matinn þykkan eða þunnan osfrv.

Hráefni
Með því að búa til sjálf get ég valið gæða hráefni, ég reyni að velja íslenkst grænmeti og ávexti eða lífrænt ræktað eftir fremstu getu og án allra aukaefna.

Kostnaður
Ég hef enn ekki reiknað út nákvæman kostnað við heimatilbúinn mat miðað við þann keypta en ég veit fyrir víst að það er MUN ódýrara að búa hann til sjálf frá grunni.

Umhverfið
Mörg framleiðslufyrirtæki kaupa hráefni í Suður- Ameríku þar sem það er ódýrast, flytja það til Asíu þar sem það er verkað í mat og svo er það flutt þaðan í verslanir um allan heim. Með því að velja íslenskt ræktað grænmeti og ávexti (þegar þess er kostur) og útbúa matinn sjálf/ur þá sparast umhverfinu heilmikið eldsneyti sem annars fer í flutning á hráefni. En eins og við vitum eigum við ekki alltaf kost á íslenskt ræktuðu því miður, oft þurfum við að notast við hráefni erlendis frá en með að útbúa matinn sjálf fækkar samt viðkomustöðum hráefnisins og getum við þar með dregið úr mengun.
Umbúðir eru líka annarskonar mengun sem við getum dregið úr. Með því að búa matinn til sjálf og setja hann í endurnýtanlegar umbúðir spörum við umhverfinu heilmikið magn af plasti og annarskonar umbúðum sem annars lenda í ruslinu strax eftir að lokið hefur verið við matinn. Glerkrukkur utan af keyptum barnamat má þó auðvitað endurnýta og hvet ég ykkur til þess.

Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem velja að kaupa tilbúinn barnamat og það er alls ekkert rangt við það, ég geri það stundum sjálf, gríp í skvísu þegar ég er á flakki ef ég hef gleymt að taka með mér úr frystinum. Það er sem betur fer fullt af góðum barnamat á markaðnum í dag, meira segja kominn íslenskur matur sem ég held að sé enn betri kostur en sá erlendi án þess þó að ég hafi prófað hann sjálf. En endilega vandið valið og skoðið merkingar á vörunum vel. Umfram allt gerið það sem virkar fyrir ykkur og barnið ykkar hvort sem það er að elda sjálf eða kaupa tilbúinn mat.