Ýmislegt

Heimatilbúin málning

Það er gaman að brasa eitthvað með börnunum í sumarfríinu og það þarf alls ekkert að vera flókið eða kostnaðarsamt. Í dag gerðum við smá tilraunir í eldhúsinu með að búa til málningu til að mála á gangstéttina fyrir framan. Eftir 3 tilraunir vorum við búin að finna út úr því hvaða blanda væri best og Emil og Ástrós dunduðu sér heillengi við að mála fyrir framan hús.

Þetta er mjög einfalt og fljótgert

2,5 dl maís sterkja
3 dl kalt vatn
matarlitur

Maís sterkjunni og vatninu er blandað vel saman eða þar til sterkjan hefur verið leyst alveg upp, blöndunni skipt í litlar skálar eða muffins form og svo matarlit blandað út í og hrært vel, þá er þetta tilbúið.

Það kom best út að setja þetta bara í hrærivélina og leyfa þessu að blandast vel í nokkrar mínútur, en auðvitað hægt að gera þetta í höndum líka. Þegar þetta er tilbúið sest sterkjan á botnin hægt og rólega en því lengur sem er hrært  því minna sest þetta til og málningin heldur sér í lengri tíma.

Ég prófaði líka að nota kartöflumjöl og það virkaði svo sem alveg en mjölið sest mikið fyrr á botninn en með maís sterkju. Þegar þetta byrjar að setjast til þá er bara að hræra uppí með penslinum, ekkert mál.


Ég passaði að hafa þau í frekar dökkum fötum þannig að ef þau sulla á sig að þá fesist matarliturinn síður í og hafði þau ekki bestu skónum sínum heldur. Hingað til hef ég ekki lent í veseni með matarlit en það sakar ekkert að forðast að fá hann í ljósan fatnað.

Þeim fannst þetta svo gaman að við blönduðum aftur málningu svo þau gætu farið út að mála fyrir mat.

Restina af málningunni tóku þau svo með sér í sturtu og máluðu flísar bæði á veggjum og gólfi, við erum með hvítar flísar og hvítar fúgur og þetta skolaðist allt af án vandræða, en ég mæli samt alveg með að fara varlega og gera prufu hvort ykkar flísar og fúga þola matarlit.

Ef þú prófar þetta með þínum börnum þætti mér ótrúlega vænt um ef þú myndir deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais, merkja myndina með @infantia.is eða einfaldlega senda mér skilaboð ❤️