1 árs +,  4+ mánaða,  6+ mánaða,  9+ mánaða

Hafragrautur

_MG_1960

Hreinir hafrar innihalda ekki glúten en flest haframjöl á markaðnum innheldur það að einhverju leyti vegna þess að því er pakkað á sama stað og aðrar mjöl/korntegundir sem innihalda glúten. Ég kaupi alltaf lífrænt ræktað haframjöl og mæli eindregið með því. Þar til nýlega hefur alltaf verið mælt með að börn fái ekki glúten fyrr en eftir 6 mánaða aldur en nú hefur þessum ráðleggingum verið breytt enda virðist ekkert benda til þess að neysla glútens frá 4 mánaða aldri auki líkur á óþoli/ofnæmi. Það er þó rétt að fara hóflega í glútenið fyrst eftir að börn byrja að borða og gefa þeim fjölbreytta grauta sem bæði innihalda glúten og eru án.

Hafragrautur er svo dæmalaust hollur og góður í morgunmat já og bara í öll mál, ég sjálf ELSKA hafragraut og gæti ekki án hans verið.

Mín öll 4 hafa verið mjög hrifin af hafragraut og ég á alltaf  til bæði tröllahafra og fína hafra. Á meðan það er verið að kynna hafragrautinn fyrir litlum börnum er mjög sniðugt að setja fína hafra í blandara í skamma stund og mala þá enn fínni, því þá fær grauturinn mýkri og sléttari áferð sem hentar þeim allra minnstu. En þegar barnið hefur vanist hafragrautnum hef ég hætt því og svo þegar það verður enn eldra er hægt að skipta yfir í tröllahafrana.

Hinn fullkomni barna hafragrautur á okkar heimili:
1/2 dl hafrar
1 1/2 dl vatn
tæpur dl mjólk (móðurmjólk, þurrmjólkurblanda eða stoðmjólk ef barnið er orðið eldra en 6 mánaða)
1 tsk fita

Ég legg hafrana alltaf í bleyti yfir nótt, þá verður grauturinn svo einstaklega “creamy” og ljúffengur, það styttir líka suðutímann.

Haframjöl og vatn sett í krukku að kvöldi, lokað vel og geymt í ísskáp. Að morgni er blöndunni hellt í lítinn pott og mjólkinni bætt við og soðið þar til hæfilega þykkt. Kælt og þynnt með meiri mjólk ef þurfa þykir og 1 tsk af fitu bætt útí.

Ef notuð er brjóstamjólk er ekki æskilegt að sjóða hana með grautnum heldur bæta henni út í í lokin þegar grauturinn er soðinn.

_MG_1966

Stoðmjólkin hefur stuttan endingartíma eftir opnun og á meðan mín börn voru ekki farin að drekka hana heldur bara fá út á grauta (þau fengu bara brjóstamjólk að drekka framundir 1 árs) þá frysti ég hana. Setti stoðmjólkina í klakabox og frysti í teningum (0,8 dl) og það passar að setja einn slíkann tening með í krukkuna yfir nóttina og svo er allt soðið saman að morgni.

Það má leika sér endaulaust með að bæta einhverju gómsætu út á grautinn t.d. chia fræjum, rúsínum, ceylon kanil, ávaxtamauki, kínóa, banana, vanillu og svo mætti endalaust telja.