1 árs +,  6+ mánaða,  9+ mánaða

Grasker með sætum kartöflum og mangó

_MG_0922Grasker eða Butternut Squash er dásamlega gott á bragðið og tilvalið að nota í barnamat. Þetta mauk er mjög gott og vel hægt að nota þetta sem meðlæti fyrir alla fjölskylduna með mat, en er þá haft í þykkara lagi, meira eins og kartöflumús.

1 Butternut Squash grasker
2 litlar sætar kartöflur eða 1 stór
1 vel þroskað mangó
1-11/2 bolli kókosmjólk

Graskerið er skorið í tvennt endilangt, skafa þarf steinana í burtu ásamt kjarnanum með skeið. Graskerið er sett í eldfast mót með sárið upp og bakað á 175°C í 35-45 mínútur, eða þar til auðvelt er að stinga gaffli í það. Þegar graskerið er fullbakað er það tekið úr ofninum og látið kólna aðeins.
Á meðan graskerið er í ofninum eru sætu kartöflurnar þvegnar, afhýddar og skornar í teninga, settar í gufusuðusigti og soðnar í 15 mínútur eða þar til þær eru mjúkar. Mangóið afhýtt og skorið í minni bita.
Þegar graskerið er búið að kólna aðeins er kjötið skafið innan úr hýðinu með skeið og maukað með töfrasprota eða í matvinnsluvél ásamt sætu kartöflunum, mangóinu og kókosmjólkinni. Það er best að bæta kókosmjólkinni út í í skömmtum þar til réttri áferð er náð.

Hægt er að nota frosið mangó en þá þarf að setja bitana úti gufusuðusigtið hjá sætu kartöflunum í nokkrar mínútur.

Geymist í 3-4 daga í vel lokuðu íláti í ísskáp og 3 mánuði í frysti.