Barninu gefið að borða í fyrsta sinn
Þegar þú byrjar að gefa barninu þínu að borða eru hér nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
- Best er að barnið sé ekki of svangt og því tilvalið að gefa því t.d. annað brjóstið eða hluta af pelagjöf áður en maturinn er kynntur. Klára svo brjósta/pelagjöf eftir að barnið hefur smakkað matinn.
- Gott er að þynna matinn með brjóstamjólk eða þurrmjólk til þess að barnið finni bragð sem það þekkir.
- Til að byrja með eru eingöngu gefnar 1-2 teskeiðar af mat einu sinni á dag í nokkra daga. Eftir það er bætt við einni teskeið til viðbótar í nokkra daga og svo er skammturinn aftur aukinn og svo koll af kolli.
- Maturinn þarf að vera mjög fínn og þunnur til að byrja með, kekkja og örðulaus. Maturinn er þannig auðmeltari og barninu klígjar síður við honum.
- Passa þarf að maturinn sé alls ekki of heitur, best er að mæla hitann með að setja mat á innanverðan úlnliðinn. Ef þú finnur ekkert er maturinn mátulega heitur. Maturinn má vera kaldari, en alls ekki heitari.
- Gefðu barninu úr sér skál, ekki ílátinu sem geyma á matinn í, það er ekki æskilegt að bera bakteríur úr munni barnsins í mat sem á að geyma (þ.e. ef geyma á matinn til næsta dags t.d.)
- Það getur verið góð hugmynd að dýfa fingri í matinn (hreinum að sjálfsögðu) og leyfa barninu að sjúga og smakka þannig ef barnið vill ekki opna munninn fyrir skeiðinni.
- Sama fæðutegundin er gefin nokkra daga í senn til þess að vita hvernig barnið bregst við, hvort ofnæmisviðbrögð eða óþægindi komi fram . Nokkrum dögum síðar er næstu fæðutegund bætt við og gefin ásamt þeirri sem gefin var á undan í nokkra daga og svo koll af kolli.
- Gott er að kynna nýja fæðutegund í hverri viku því fjölbreytt fæða skiptir mikilu máli hvað hollustu og fjölbreytta næringu varðar.
- Sum börn vilja drekka örlítið með matnum sínum og þá er gott að gefa þeim vatn að drekka. Gott er að sjóða vatn og blanda svo með köldu þar til það er mátulega heitt, því börnum finnst ískalt vatn ekki gott í fyrstu.
- Ef barnið er farið að sitja sjálft getur það sjálft gefið til kynna þegar það hefur fengið nóg með því að snúa höfðinu eða reigja sig aftur. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með viðbrögðum barnins og virða það þegar þau vilja ekki meira.
- Sé barnið ekki farið að sitja sjálft er best að sitja með það í fangi sér en gæta þarf þess að gefa þeim ekki of mikið að borða þar sem þau eiga erfiðara með að gefa til kynna að þau hafi fengið nóg, en þau sem farin eru að sitja sjálf.
- Það er mikilvægt að ekki verða fyrir vonbrigðum þó barnið vilji ekki borða. Þá er bara reynt aftur á morgun
- Leyfðu barninu að snerta matinn, finna áferðina og lyktina og kynnast honum þannig. Þetta er subbulegt og það verður bara að hafa það, það er nauðsynlegt fyrir börn að fá að “leika” með matinn til þess að læra að borða sjálf.
- Ef vart verður við ofnæmiseinkenni s.s. niðurgang, útbrot eða uppköst skaltu hætta með þá fæðutegund strax og hafa samband við ungbarnaverndina eða lækni.
- Við erum fyrirmynd barnanna og þau lesa mikið í svipbrigði okkar. Vertu jákvæð/ur og brostu á meðan þú matar barnið þitt.

