Byrjunin

Fyrstu fæðutegundirnar

_MG_2018

Barnið er tilbúið fyrir fyrstu ábótina og þá þarf að ákveða hvaða fæðutegund á að byrja á. Hér á landi tíðkast að gefa börnum mildan graut sem fyrstu ábót, en það er líka hægt að byrja á mildu grænmetismauki.

Grautur
Sjálf byrjaði ég að gefa öllum börnunum mínum graut fyrst,  ég bjó til alla grauta frá grunni fyrir fyrstu börnin mín tvö, það er sáraeinfalt og tekur stutta stund og ég hvet þig til þess að prófa. En yngstu tvö börnin mín fengu hins vegar stundum tilbúna ungbarnagrauta í bland við þá heimatilbúnu og ég lagði mikið uppúr að kaupa góða lífræna grauta handa þeim. Ég mæli hiklaust með grautunum frá Woodland Wonders sem ég komst í kynni við snemma á þessu ári  og hefur sá yngsti borðað grautana frá þeim óspart, þeir eru í algjöru upppáhaldi hjá honum enda með eindæmum bragðgóðir og vandaðir. Grautarnir eru væntanlegir í vefverslunina.

Góðir byrjunar grautar:
Maísgrautur
Bókhveitigrautur
Hirsigrautur
Hrísmjölsgrautur

Hægt er að kaupa þessar korntegundir fínmalaðar og búa til grauta sjálfur eða kaupa sem tilbúna ungbarnagrauta.
Grautur sem búinn er til úr maísmjöli, hirsimjöli, hrísmjöli eða bókhveitimjöli hentar vel að gefa sem fyrstu ábót vegna þess að þeir hafa milt bragð og mjúka og kremaða áferð. Þegar barnið hefur vanist þunnum og mjúkum grautum er hægt að byrja að nota flögur í grauta sem gefa grófari áferð.

Gott er að gefa barninu grauta úr mismunandi korni og skipta á milli korntegunda sem eru með og án glútens. Maís, hirsi, rísmjöl og bókhveiti inniheldur ekki glúten, en hafrar (nema sérstakir glútenlausir), rúgur, hveiti og spelt inniheldur glúten.
Ekki er æskilegt að gefa barni graut úr rísmjöli á hverjum degi vegna þess hve stemmandi hann er.

Grænmetismauk
Kartöflur eða sætar kartöflur eru mildar á bragðið og gefa mjúka áferð. Þær metta líka vel og henta því vel sem fyrsta grænmeti sem barninu er gefið og einnig sem grunnmauk með öðru grænmeti. Það er mikilvægt að gefa barninu mismunandi tegundir af grænmeti til þess að örva bragðlauka barnsins. Ekki gefa barninu spínat, rauðrófur, fennel og sellerí fyrr en barnið er orðið eldra 6 mánaða og þá eingöngu í mjög takmörkuðu magni fram yfir 1 árs aldurinn vegna nítrat innihalds.

Ávaxtamauk
Gott er að byrja að gefa barninu máuk úr eplum, perum, banönum eða ferskjum sem hafa milt bragð. Melónur og ber er líka hægt að gefa í litlu mæli, þar sem það eru bragðmeiri ávextir.
Þegar barnið er orðið 6 mánaða má það borða alla ávexti bæði ferska og soðna.

Hægt er að nota ávaxtamauk til að sæta grauta og gefa fjölbreyttara bragð. Líka hægt að gefa sem eftirrétt á eftir grænmetismauki. C vítamínið í ávaxtamaukinu auðveldar líkamanum upptöku járns úr öðrum mat sem barnið borðar. Það er ekki ráðlegt að gefa eingöngu ávaxtamauk sem máltíð, bæði vegna þess að oft inniheldur það ekki næga orku og vegna þess hversu sætt það er á bragðið. En margir telja að það geti orðið til þess að barnið kjósi frekar ávaxtamauk framyfir grænmetismauk.

Ég mæli með að búa til mikið magn af ávaxta- og grænmetismauki í einu og frysta í klakabökkum og skvísum og geyma. Þá er alltaf hægt að grípa einn og einn mola þegar á að gefa barninu að borða eða kippa tilbúinni skvísu úr frystinum þegar farið er á flakk.

Mundu að bæta alltaf við 1 tsk af fitu út í heimagerða grauta og mauk, t.d. hörfræolíu, ólífuolíu, kókosolíu, eða saltlausu smjöri.