Fljótandi “krítar” málning
Mínum börnum finnst gaman að teikna og gera mjög mikið af því og í sumar hafa yngstu tvö börnin, Emil & Ástrós verið dugleg að kríta úti í góða veðrinu. Þessi fljótandi málning hefur slegið algjörlega í gegn hjá þeim og er frábær tilbreyting frá hefðbundnum krítum. Það má skapa ýmis listaverk í öllum regnbogans litum og málningin helst líka upphleypt eftir að henni hefur verið sprautað og þornar þannig.
Málningin er fljótgerð og úr örfáum innihaldsefnum sem til eru á flestum heimilium, það helst sem gæti vantað eru sprautubrúsar fyrir málninguna. Ég keypti brúsa í Byggt & Búið fyrir rúmlega 200 kr stk. það eru 2 stærðir í boði og ég tók minni stærðina 125 ml, litlar hendur hafa betra vald á þeim.
Það sem þarf:
2 bollar hveiti
2 bollar vatn
3 msk uppþvottalögur
Matarlitir
Sprautubrúsar
Vatni og hveiti er blandað vel saman þar til blandan er kekkjalaus, uppþvottaleginum bætt út í og hrært vel. Blöndunni skipt í litlar skálar og matarlit bætt út í og hrært vel. Hver litur er svo settur í sprautubrúsa og þá hefst fjörið. Það má minnka eða stækka uppskriftina eftir þörfum, en þetta magn passar vel í 6 stk 125 ml brúsa.
Hægt er að skola málninguna af gangstéttinni þegar búið er að leika með hana eða leyfa næstu rigningu að sjá um verkið.
ATH. nota þarf málninguna samdægurs því blandan geymist ekki vel og ef hún er skilin eftir í brúsunum yfir lengri tíma getur myndast þrýstingur og tapparnar fara af.
Ég mæli með að passa að hafa börnin í frekar dökkum fötum þannig ef þau sulla á sig að þá festist matarliturinn síður í fötunum og ekki hafa þau bestu skónum sínum heldur. Hingað til hef ég ekki lent í matarlitur festist í fötunum þeirra en það borgar sig að reyna að forðast að fá hann í ljósan fatnað.
Ef þú prófar þetta með þínum börnum þætti mér ótrúlega vænt um ef þú myndir deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais, merkja myndina með @infantia.is eða einfaldlega senda mér skilaboð ❤️

