Ýmislegt

Ferðast með börn

Margir mikla það fyrir sér að ferðast með börn, en í raun er það ekkert mál ef skipulagið og undirbúningurinn er góður.  Nú ferðumst við fjölskyldan mikið og ég  hef ekki tölu á hversu margar flugferðir við höfum farið í með börnin okkar á öllum aldri og oftar en ekki hafa það verið 8 tíma Ameríkuflug.  Mig langar að deila með ykkur nokkrum ráðum sem ég vona að nýtist ykkur.

Nesti

Nesti á ferðalögum er gríðarlega mikilvægt, því börn sem eru södd eru sælli, það er svo einfalt, það hjálpar líka til við að koma í veg fyrir ferðaveiki. Það er alls ekki alltaf sem börnum líkar það sem á boðstólnum er um borð í flugvélum, svo sparar það líka helling að taka með sér nesti að heiman. Og já það má fara með mat um borð, það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því, bara passa uppá vökvareglur í handfarangri.

Mín börn eru ekki sérlega hrifn af því sem er á boðstólnum í flugvélum svo við förum alltaf vel nestuð í flug. Uppáhalds hjá okkar börnum er að taka með sér hamborgara, en pabbi þeirra smellir saman hamborgurum úr hreinu nautahakki og steikir stuttu áður en við fórum út á völl, þau velja sjálf grænmeti og sósur sem settar eru á og svo eru borgararnir kældir og settir í Ziplock poka. Þau borða þetta alltaf vel og svo höfum við með okkur ýmislegt annað nasl til að narta í líka.

Dæmi um nasl og nesti sem gott er að hafa með sér
  • Vatnsbrúsi/stútkanna, mun þægilegra en að fá opin glös í fluginu sem sullast auðveldlega úr
  • Rúsínur í litlum pökkum
  • Þurrkað ávaxtanammi
  • Saltstangir eða saltkringlur
  • Niðurskornir ávextir í boxi eða ziplock poka
  • Skvísur með ávaxta/grænmetismauki
  • Hafrakex
  • Orkubitar eða stangir
  • Samlokur með næringarríku og góðu áleggi
  • Vefjur með t.d. kjúkling og grænmeti
  • Hamborgari, sósa og grænmeti að vali hvers og eins, kælt og sett í ziplock poka og borðað kalt
  • Núðlur með kjúkling, grænmeti og eggjum

Yngri stelpan okkar er mjög viðkvæm bæði fyrir flug og bílveiki, en með því að passa upp á að hún sé södd á ferðalögum og stöðugt að nasla eitthvað tekst okkur að láta henni líða vel og koma í veg fyrir uppköst.

Afþreying um borð

Afþreying í flugi er ekki síður mikilvæg því börnin þreytast fljótt á að sitja í sæti eða fangi ef þau hafa ekkert fyrir stafni. Það er heldur ekki afþreyingarkerfi í öllum vélum og þá er gott að nota ipad/spjaldtölvu ef tækifæri ef tök eru á og vera búin að undirbúa barnaefni við hæfi og skemmtileg öpp líka. Það er gott  að leyfa börnunum að velja sér uppáhalds bangsa og eitt lítið leikfang til að hafa með sér í vélina, hjá okkur hefur þetta verið Barbiedúkka, ofurhetjukarl, hvolpasveitar fígúra, bíll osfrv. Ég tek alltaf eitthvað nýtt leikfang með handa hverju barni (ekkert rándýrt samt), það getur verið litabók, bók til að lesa, föndurpakki með myndum til að lita og límmiðum, lítið pússl, lítill bíll eða einhver fígúra, hringla eða annað smábarnadót, fer alveg eftir aldri barnanna. En að draga upp nýtt dót í miðri flugferð getur alveg gert kraftaverk.

Afþreying sem ég pakka með í flug fyrir börnin
  • Ipad/spjaldtölva og heyrnatól
  • Litlar bækur til að lesa, Smjattpattar, Litlu smábarnabækurnar eða aðrar léttar bækur
  • Litabók og litir
  • Límmiðar, magnað hvað börn geta dundað sér með límmiða, jafnvel mjög ung börn
  • Spil, t.d. Svartipétur, Tvenna eða annað sem tekur lítið pláss
  • Föndurpakki, oft er hægt að fá litla föndurpakka fyrir nokkra hundrað kalla  sem innihalda límmiða og myndir til að lita og ég á venjuelga alltaf svoleiðis til að grípa með
  • Pússluspil, lítið harðspjald og pússlið raðast ofaní
  • Mæli líka með að gera svona FERÐAMÖPPU sem inniheldur margt af ofantöldu
  • Hringla, skrjáfudót eða annað sem hæfir þroska barnsins sé um mjög ungt barn að ræða

Handfarangurinn

Þegar við fjölskyldan ferðumst erlendis þá pakka ég vel og skipulega í handfangurinn. Hvert barn hefur með sér lítinn bakpoka í handfarangur þar sem það hefur heyrnatólin sín, bangsa, leikfang og annað til dundurs fyrir flugferðina, en EKKI ipadinn. Mér finnst langþægilegast að hafa allt það sem þarf að taka uppúr í öryggisleitinni á einum og sama staðnum. Allir vökvar, ipadar og fartölvur pakkast því í eina tösku.  Allt sem þarf eða gæti þurft að taka uppúr um borð í vélinni fer svo í eina tösku, hálspúðar, aukaföt, bleyjur og blautþurrkur, nesti osfrv. Þegar við erum búin að fara í gegnum öryggisleitina og erum að pakka dótinu niður aftur set ég ipadana í töskuna sem á að opna í vélinni. Þannig er allt komið á einn stað og ekki þarf að opna nema eina tösku í vélinni, fyrir utan auðvitað bakpoka barnanna sem þau hafa undir sætinu fyrir framan sig.

Það sem ég pakka með í handfarangur
  • Ipad
  • Heyrnatól
  • Handspritt
  • Sótthreinsi blautþurrkur til að þurrka af sætisbakinu fyrir framan, borði og sætisörmum (merkilegt nefnilega hvað börn eru með puttana um allt og setja þá svo upp í sig)
  • Blautþurrkur (til að þurrka andlit og hendur)
  • Tyggjó (til að nota í flugtaki og lendingu ef þarf)
  • Verkjalyf, bæði stílum fyrir börnin og paratabs og íbúfen fyrir þá fullorðnu
  • Aukaföt á alla (fátt verra en að lenda í sulluslysi eða að fá yfir sig ælu og geta ekki skipt um föt)
  • Vatnsbrúsar og stútkanna (ef ferðast er með ung börn)
  • Nesti og nasl
  • Nýtt leikfang fyrir börnin sem er dregið fram ef þörf er á þegar líða fer á flugið
  • Snuð, nokkur stk og snuðband (ef ferðast er með ung börn)
  • Öll lyf ættu líka alltaf að fara í handfarangur því ef innritaðar töskur tefjast eða týnast er vont að vera án lyfjanna sinna fyrir þá sem þurfa á þeim að halda

Sjúkratryggingar, vottorð og leyfi

Það er að ýmsu að huga áður en haldið er af stað og um að gera að vera tímanlega að ganga frá öllum ferðaskjölum og öðru sem þarf meðferðis. Það er grautfúlt að greiða tvöfalt verð fyrir vegabréf vegna flýtiafgreiðslu, já já ég hef gert það 1x, og það er enn meira leiðinda vesen að fara í gegnum landamæraeftirlit í USA og lenda í vandræðum vegna villu í vegabréfsnúmeri á ESTA umsókn, ég hef líka prófað það. Trúið mér það langar engan að standa í slíku veseni!

  • Vegabréf, munið að gá tímanlega hvort öll vegabréf séu í gildi og sækja um ný ef þess þarf (allar upplýsingar HÉR).
  • Leyfi til að ferðast með barn, ef börn undir 18 ára ferðast með aðeins öðru foreldri sínu eða án þeirra t.d. með íþróttafélagi, ættingjum eða vinum þarf að hafa meðferðis samþykkisyfrilýsingu þar sem forsjáraðilar veita leyfi fyrir ferðalaginu. (sjá nánar HÉR). 
  • Fæðingarvottorð, það hefur aukist að foreldrar sem ferðast einir með börn þurfi að færa sönnur fyrir því að barnið/börnin séu í raun þeirra og getur því verið gagnlegt að hafa fæðingarvottorð barns, sem sýnir hverjir eru foreldrar þess meðferðis.  Fæðingarvottorð fæst útgefið hjá Þjóðskrá (hægt að sækja um HÉR).
  • Evrópska sjúkratryggingakortið, þegar ferðast er til Evrópu er æskilegt að hafa með sér  Evrópska sjúkratryggingakortið (sjá nánar og hægt að sækja um það HÉR )
  • Tryggingayfirlýsing, ef ferðast er utan Evrópum er æskilegt að hafa með sér tryggingayfirlýsingu sem sýnir að viðkomandi sé sjúkratryggður á Íslandi (sjá nánar og hægt að sækja um HÉR)
  • ESTA & APIS, ef ferðast er til USA er mikilvægt að hafa ganga frá ESTA umsókn  (amk 72 tímum fyrir brottför) og gæta þess að hún sér rétt fyllt út. Einnig þarf að fylla inn APIS upplýsingar fyrir brottför. (Sótt er um ESTA HÉR og APIS upplýsingar eru fylltar út hjá því flugfélagi sem flogið er með).
  • Ferðatryggingar og tryggingar á bílaleigubílum, kynnið ykkur vel hvaða tryggingar eru innifaldar í kreditkortinu ykkar og gætið þess að greiða flugið með því korti áður en keyptar eru auka ferðatryggingar. Bílaleigur reyna nánast undantekningalaust að selja manni auka tryggingar þegar bíllinn er sóttur, og lang oftast eru það tryggingar sem innifaldar eru í krediktortum okkar íslendinga.
  • Ferðast á meðgöngu, ef farið er í flug á meðgöngu mæli ég með að hafa meðferðis staðfestingu frá ljósmóður um meðgöngulengd. Ath þetta á ekki eingöngu við á lok meðgöngu . Sjálf hef ég lent í þrasi í innritun á flugvelli því ég var ekki með slíka staðfestingu með mér og þó bara gengin 24 vikur á þeim tíma.

Nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga

  • Það er mikið auðveldara að ferðast létt og skilja allan óþarfa eftir heim, sérstaklega þegar ferðast er með börn.
  • Góð kerra er eitt það mikilvægasta á ferðalðögum ef ferðast er með ung börn. Gættu þess að pakka kerrunni inn fyrir flugið, í stórann poka og teipa vel eða í sérstakan kerrupoka sem fæst frá kerru og vagnaframleiðendum. Ef kerrann skemmist í flugi fæst hún ekki bætt nema hafa verið pakkað í poka/tösku.
  • Föt, það er alger óþarfi að taka fjöldann allann af fötum með, reynslan er sú að oftast er notað minna en tekið er með, í mörgum tilvikum er verslað eitthvað af nýjum fötum á áfangstað og í versta falli er hægt að komast í þvottahús um allan heim.
  • Barnamatur og þurrmjók, ef ferðast er með börn sem eru að borða ákveðin barnamat eða drekka þurrmjólk þá mæli ég með að taka slíkt með ef ekki er vitað hvort sú tegund sem barnið er vant fæst á áfangastað. Það er óþarfa vesen að fara að leita að mat eða þurrmjólk sem barninu líkar eða þolir í fríinu.
  • Sólarvörn og Aftersun, það er mikilvægt að velja slíkt vel og jafnvel gott að hafa slíkt með sér að heiman ef ekki er vitað hvort tegundin sem barnið er vant/þolir fæst á áfangastað.
  • Lyf, ef einhver í fjölskyldunni tekur inn lyf að staðaldri þarf auðvitað að muna eftir þeim, og muna líka alltaf að pakka þeim í handfarangur.

Ekki gleyma ykkur sjálfum

Þið vitið þetta með að setja súrefnisgrímuna fyrst á sig sjálfan og svo að hjálpa öðrum gildir um allt í lífinu. Ekki gleyma ykkur sjálfum, en það á til að gerast í amstrinu við að sjá til þess að börnin hafi það sem best á ferðalögum. Mikilvægt er að vera vel hvíld fyrir ferðina því flugferðir geta tekið á, passa þarf að nærast vel bæði fyrir flug og í fluginu sjálfu sem og drekka vel af vatni auðvitað.

Góða ferð!

Ef þú nýtir þér þessar hugmyndir máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais,  merkja myndina með @infantia.is eða senda skilaboð, mér þykir alltaf voða vænt um það.