Ferðamappa
Þegar við fjölskyldan ferðumst með flugi pakka ég ýmsilegu með í handfarangurinn fyrir börnin til afþreyingar. Ég sá fyrir löngu síðan hugmyndir á Pinterest af ferðamöppum þar sem allt er geymt á einum stað. Ég ákvað að nýta mér þetta áður en við flugum til Spánar um daginn og setti saman möppur fyrir yngstu börnin tvö. Þau höfðu ekki hugmynd um þetta og þegar ég dró möppurnar upp í fluginu vöktu þær vægast sagt mikla lukku og voru notaðar alla leiðina.
Ég keypti allt sem ég notaði í möppurnar í Pennanum/Eymundsson en þetta allt fæst eflaust í flestum bókabúðum, svo notaði ég liti, límmiða og annað smálegt sem ég átti heima líka.
Þær útgáfur sem ég hafði séð þá var notuð A4 mappa en mér þykir það of fyrirferðamikið svo ég ákvað að nota A5 möppur í staðinn, þá eru þær mátulega litlar og komast í litla bakpoka eða eins og hjá mér bara í veskið mitt sem ég var með í handfarangri.
Það sem þarf í þetta er mappa í str. A5 og nokkrir renndir plastvasar í str. A5, bæði grunnir og djúpir.
Vasarnir eru gataðir og settir í möppuna og svo eru þeir fylltir allskonar dóti. s.s. tré eða tússlitum, teikniblokk, límmiðum, spilastokk eð hverju sem manni dettur í hug.
Ég keypti líka stílabók “sögubókin mín”, gataði og setti aftast þannig að hægt væri að gera ferðadagbók, þar sem skrifað er það sem drífur á dagana í ferðalaginu og börnin myndskreyta.
Börnin skreyttu svo möppurnar sínar sjálf með límmiðum
Möppuna er líka sniðugt að taka með þegar farið er út að borða t.d. til að stytta börnunum stundir. Vasana má svo líka nota til að safna ýmsum minningum úr ferðinni s.s. ljósmyndum, aðgangsmiðum í garða ofl.
Ef þú nýtir þér þessar hugmyndir þætti mér ótrúlega vænt um ef þú myndir deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais, merkja myndina með @infantia.is eða einfaldlega senda mér skilaboð ❤️

