1 árs +,  9+ mánaða,  Afmælisveislan,  Fyrir alla fjölskylduna,  Nestisboxið

Einstaklega góðar kúmen brauðbollur

Þessi uppskrift hefur fylgt mér í yfir 20 ár, eða alveg síðan ég keypti mér mína fyrstu matreiðslubók nokkrum mánuðum áður en ég flutti til Danmerkur með kærastanum mínum (eiginmanni í dag) og við byrjuðum að búa.  Ég man ennþá eftir því þegar við bökuðum þessar bollur í fyrsta sinn í litla eldhúsinu okkar í Kaupmannahöfn. Síðan þá hafa þessar bollur verið bakaðar ótal sinnum og eru í sérstöku uppáhaldi hjá okkur, börnin öll elska þær líka og finnst þær vera bestu brauðbollur í heimi. Þær eru oft á borðum í afmælisveislum hjá okkur og vekja alltaf jafn mikla lukku.

Uppskriftin er upphaflega úr matreiðslubókinni “Ferskt & framandi” sem gefin var út af Nýkaup sem var og hét en við höfum lagað hana örlítið til með árunum.

500g hveiti
3 tsk þurrger
1 tsk lyftiduft
4 msk sykur
1 tsk salt
70g smjör
2 dl mjólk, ylvolg
1 dl AB mjólk, ylvolg
1 egg
4 msk kúmen
Ostur

Blandið þurrefnunum saman í hrærivélaskál, setjið mjólk, AB mjólk og smjör saman í lítinn pott og velgið. Hellið volgu blöndunni út í þurrefnin ásamt egginu og hnoðið vel þannig að deigið sé laust frá skálinni. Látið deigið hefast í 45 mínútur.
Þegar deigið hefur hefast er það sett á hveitistráð borð, en ekki hnoða það neitt samt. Takið klípu af deiginu og mótið bollur ca 55g hvert stykki (já ég vigta þær því ég vil hafa þær allar svipað stórar) og raðið á bökunarpappírsklædda bökunarplötu, fyrsta fer í miðjuna og svo hinar í kring þannig að bollurnar mynda einskonar blóm. Ekki klessa þeim alveg saman svo þær hafi örlítið rými til að hefast.

Ég reyni alltaf að hnoða bollurnar sem minnst svo þær verði sem mest fluffy, ég tek bara klípu af deiginu set á vigtina og svo rétt rúlla ég þeim í lófanum svo þær verði nokkurn veginn hringlaga (alls ekki hnoða í fullkomnar bollur því þá verðar þær þéttari) . Þegar búið er að raða bollunum á bökunarplötuna er gott að leyfa þeim að hefast í ca 20 mín ef tími gefst til því þá verða þær ennþá loftmeiri, en ekki bráðnauðsynlegt.

Áður en bollurnar fara í ofninn er lögð ein sneið af osti ofan á hverja bollu og svo eru þær bakaðar við 180°c á blæstri í uþb. 15-18 mínútur eða þar til bollurnar hafa fengið gylltan lit.

Gott er að setja eldfast mót í botninn á ofninum þegar kveikt er á honum og skvetta svo 1 dl af vatni í það þegar bollurnar eru settar inn og loka strax, þá myndast gufa í ofninum, svona eins og er gert í bakaríum og gera þær extra góðar…en við gerum það nú samt ekkert sérlega oft samt og þess þarf ekki.

Bestar nýbakaðar og volgar með miklu smjöri og osti.

Bollurnar eru líka vinæslar í nestixboxin fyrir skólann samhliða ávöxtum og grænmeti.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais eða merkja myndina með @infantia.is