Einfalt skipulagskerfi sem virkar
Upphaflega skrifaði ég þenna pistil fyrir Foreldrahandbókina í fyrra og veit ég að margir hafa nýtt sér þetta kerfi, en mig langar að endurbirta hann hér og vona að enn fleiri geti nýtt sér.
Flest viljum við ala upp hjálpsöm og kurteis börn ekki satt? En það er kannski ekki alltaf eins auðvelt í framkvæmd og það hljómar.
Fjölmargar rannsóknir* sýna að það er börnum hollt að hjálpa til á heimlinu, alveg frá unga aldri. Það eykur félagslegan þroska barna og hefur góð áhrif á atferli þeirra. Rannsóknir þar sem börnum er fylgt eftir í ára raðir sýna að börn sem sinna heimilisstörfum plumma sig betur sem fullorðin, þau hafa betri starfsframa, betra andlegt heilbrigði og eru hamingjusamari en þau sem ekki sinntu heimilisstörfum sem börn.
En hvenær ættu börn að byrja að hjálpa til og hvaða verkefni hæfa þeirra aldri og þroska?
Strax frá unga aldri en mikilvægt er að börn fái verkefni sem hæfir þroska þeirra og getu. Til dæmis er hægt að fá barn í kringum eins árs til að hjálpa til við týna saman leikföng ofan í leikfangakörfuna að leik loknum eða ganga frá bókum aftur í bókahillu að lestrarstund lokinni.
Foreldrar þekkja börnin sín best og vita því nokkurn veginn hvers hægt er að ætlast til af börnum þeirra en fyrir þá sem eru í vafa má með einföldu gúggli og á Pinterest finna marga lista yfir það hvaða verk hæfa hvaða aldri.
Að fá börnin til að taka þátt getur þó stundum reynst þrautinni þyngra því svör á borð við “afhverju ég”, “ég var ekki með þetta, afhverju á ég þá að ganga frá þessu” eða “hvað fæ ég í staðinn” eru mörgum foreldrum kunnug þegar börnin eru beðin um að hjálpa til á heimilinu.
Það eru til leiðir til þess að fá börn til að taka þátt í heimilisverkunum án þess að mæta gráti og gnístan tanna. Mig langar að deila með ykkur dálitlu sem virkar ótrúlega vel á okkar heimili til að virkja börnin. Ég lærði þessa aðferð á námskeiði í skipulagningu sem ég tók fyrir um 4 árum (já ég ELSKA skipulag, tekst mér alltaf að halda því? ALLS EKKI!) og sú sem hélt það námskeið hafði notað þessa aðferð lengi á sínu heimili og lét vel af. Ég ákvað að prófa þetta og þetta svínvirkar eins og maðurinn sagði.
Þetta virkar þannig:
Eftir skóla og leikskóla draga börnin verkefni sem þau svo sinna, yfirleitt gerum við verkefnin öll á sama tíma, setjum góða tónlist á og allir glaðir, en stundum ef einhver er með vini í heimsókn frestar hann/hún því þar til síðar þann dag. Þegar verkefninu er lokið fær barnið stjörnu eða límmiða á verkefna blaðið sitt. Eftir mánuðinn fær barnið svo verðlaun fyrir vel unnin störf, eitthvað sem það hefur valið sér sjálft í upphafi mánaðar og stefnt að. En það sem gerir þetta svona auðvelt er að í bunkanum sem þau draga úr er eitt “FRÍ” spjald sem gefur þeim frí þann daginn ef þau draga það og auðvitað vonast alltaf allir eftir að hreppa það spjald! En “FRÍ” spjaldið getur hvert barn bara fengið einu sinni í viku, ef það búið að draga “FRÍ” spjaldið þá vikuna og dregur það aftur þarf barnið að draga nýtt spjald.
Verðlaunin eru eitthvað sem við ákveðum í sameiningu og í lang flestum tilfellum velja þau einhverskonar samverustundir, annaðhvort með öðru hvoru foreldrinu eða fleirum úr fjölskyldunni, það er misjafnt. en þetta er td., fara í bíó, ísbíltúr, út að borða, á skauta, í bogfimi eða eitthvað slíkt. Einstöku sinnum fá þau einhvern hlut sem þau hafa haft augastað á lengi en upphæðin sem eytt er í verðlaun fyrir hvert barn er innan “skynsemismarka”, þe. það er ekki hægt að velja sér eitthvað rándýrt, við erum með viðmiðunarupphæð sem við notumst við. Ef barn vill safna sér fyrir einhverju dýrara en þessi upphæð leyfir notar það 2 eða jafnvel 3 mánuði til að safna sér fyrir því.
Þetta hefur reynst ótrúlega vel á okkar heimili og börnin biðja um að fá að draga verkefni ef ég gleymi því sjálf. Þau býtta stundum verkefnum innbyrðis ef þeim finnst skemmtilegra það sem einhver annar dró og ég skipti mér ekkert að því. Fylgist bara með að allir ljúki sínu verkefni vel.
Ég set verkefnablaðið fyrir þessa 6 ára í plastumslag því þá get ég endurnýtt límmiðana milli mánaða 🙂
En ekki má gleyma því að það er mjög mikilvægt að kenna börnum og sýna þeim hvernig verkin eru unnin, ekki bara ætlast til að þau kunni þau. Á sama tíma er mikilvægt að setja ekki út á verkin þeirra, það má alveg sýna þeim ef betur má fara en eingöngu með uppbyggilegri gagnrýni!! Það er svo mikilvægt að brjóta ekki niður það sem barni finnst það hafa unnið ótrúlega vel og lagt sig fram við að gera. 5 ára stelpan okkar tekur fullan þátt í þessu og hún ræður ekkert alltaf alveg við verkefnin sín en gerir sitt allra besta, sýnir okkur stolt að verki loknu, ef ég veit að hún getur gert betur leiðbeini ég henni en annars fær hún hrós og límmiða fyrir og svo bara klára ég ef þess þarf án þess að hún viti það.
Með því að hafa þetta svona fá allir skýrt verkefni til að leysa þann daginn án þess að þau séu í raun beðin um það og oftast tekur þetta innan við 15 mínútur. Þetta gerir það að verkum að það auðveldara að biðja þau stundum um að hjálpa meira til án þess að þeim finnist að það sé “ALLTAF” verið að kvabba eitthvað á þeim.
Meðfylgjandi eru verkefnablöð og spjöldin tilbúin fyrir ykkur til útprentunar og ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þetta á ykkar heimili. Ef þið látið verða af væri mjög gaman að heyra frá ykkur hvernig gengur.
Ef þú prófar þetta kerfi þá máttu endilega deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais, merkja myndina með @infantia.is eða senda mér silaboð.
*dæmi um rannsóknir
Click to access 1430-boern-og-unge.pdf
http://www.readcube.com/articles/10.1002/cbl.30009
http://www.jstor.org/stable/351336?seq=1#page_scan_tab_contents

