Bókhveitigrautur
Bókhveiti er í raun fræ en ekki korntegund og er skylt súrum og rabbabara. Það hefur verið vinsælt til neyslu í Asíulöndum í hundruðir ára en neysla á vesturlöndum fer sífellt vaxandi. Bókhveiti er mjög næringar- og trefjaríkt, ég kynntist því fyrst í Danmörku fyrir 12 árum og hef notað það mikið síðan bæði í grauta og bakstur.
1/2 dl bókhveiti flögur
1 1/2 dl kalt vatn
1 tsk fita
Tæpur dl af mjólk (brjóstamjóllk, þurrmjólkurblanda eða stoðmjólk ef barnið er orðið 6 mánaða)
Bókhveit flögur, vatn og mjólk sett í lítinn pott, suðan látin koma upp á meðan hrært er í grautnum. Látið malla smá stund þar til þykknar. Þynnt með meiri mjólk ef þurfa þykir og 1 tsk af fitu bætt út í.
Ég legg bókhveitiflögur alltaf í bleyti yfir nótt eins og hafra (þ.e. ef ég man það) því þá verður grauturinn mýkri og meira “creamy” og það styttir líka suðutímann. Það er þó ekki nauðsynlegt að leggja í bleyti.
Bókhveitiflögur og vatn sett í krukku að kvöldi, lokað vel og geymt í ísskáp. Að morgni er blöndunni hellt í lítinn pott og mjólkinni bætt við og soðið eins og kemur fram hér að ofan.
Ef barnið er að byrja að borða þá er gott ráð að setja töfrasprotann í flögurnar og gera þær að mjöli því þá fæst mýkri áferð sem hentar börnum sem er að byrja borða betur.
Eins og með aðra grauta er tilvalið að bæta ýmsu út á grautinn til að fá meiri fjölbreytni, t.d. ceylon kanil, ávaxtamauki, vanillu, banana og hverju því sem hentar aldri barnsins.

