Ýmislegt

Blómalengja – einfalt og skemmtilegt föndur

Emil gerir fátt annað en að tína handa mér blóm sem hann svo setur í vatn og raðar um allt hús, en þau deyja auðvitað voða fljótt og það þykir honum alltaf leiðinlegt. Ég ákvað því að prófa að föndra með honum eitthvað sem leyfði blómunum að njóta sín lengur. Úr varð þessi litlríka blómalengja sem við svo hengdum upp í gluggann hans og Ástrósar.

Þetta er einfalt og skemmtilegt föndur sem er tilvalið að nýta til að rannsaka náttúruna í kringum sig og læra jafnvel nöfnin á gróðrinum sem þið finnið.

Það sem þarf:
Blóm og gróður
Bókaplast
Nál og tvinna

Við byrjuðum á að fara í gönguferð og tíndum allskyns litrík blóm og gróður sem við fundum, flokkuðum þau svo þegar heim var komið eftir tegundum og litum.

Á bókaplast tússaði ég meðfram krukkuloki til að búa til mót fyrir blómin. Emil raðaði svo blómum og gróðri í hringina eftir eigin höfði og ég setti svo bókaplast yfir til að loka. Það þarf að þrýsta öllu þétt saman til að reyna að losna við sem mest loft.

Við klipptum svo út hringina og þræddum þá upp á hvítan tvinna og hengdum upp í gluggann.

Emil kallar þetta draumafangara og tilkynnti mér strax morgunin eftir að hann hefði dreymt mjög fallegan draum þá nóttina allt þessum draumafangara að þakka.

Ef þú prófar þetta með þínum börnum þætti mér ótrúlega vænt um ef þú myndir deila því með mér, með því að taka mynd og deila á Instagram með #infantiais, merkja myndina með @infantia.is eða einfaldlega senda mér skilaboð ❤️