Ýmislegt

Bílferðir með börnunum

 

Ferðalög geta tekið á, sérstaklega langar bílferðir, en það má gera ferðalagið mun auðveldara og skemmtilegra með ýmiskonar afþreyingu á leiðinni. Við fjölskyldan ferðumst mikið bæði innanlands og utan og hér er eitthvað sem hefur reynst okkur vel.

  • Frúin í Hamborg
    Gamall góður og klassískur leikur sem klikkar aldrei. Bannað að segja já, nei, svart og hvítt!
  • Gettu dýr
    Þessi er uppáhalds hjá okkar börnum. Einn í fjölskyldunni velur dýr í hljóði og hinir reyna að komast að því um hvaða dýr ræðir með að spyrja spurninga sem krefjast eingöngu já og nei svars. Sá sem finnur hvaða dýr um ræðir velur næst dýr og svo koll af kolli.
  • Gettu persónu eða gettu stað
    Eins og dýra leikurinn, einn velur, hinir geta, bara já og nei svör.
  • Fjöllin, umhverfið & dýrin
    Að ræða saman um það sem við sjáum í umhverfinu, nefna dýrin sem við sjáum, kenna börnunum nöfnin á þeim fjöllum og kennileitum sem við þekkjum osfrv. er alltaf skemmtilegt.
  • Bílabingó
    Bingóspjöld með sveitamyndum, merkjum úr umferðinni eða bíltegundum. Virka eins og venjuelg bingóspjöld, dregið er fyrir viðeigandi mynd þegar það sem á henni er sést, t.d. hestur eða kind. Okkar spjöld eru nokkurra ára gömul og fengust þá á N1 og í Hagkaup, ég veit ekki hvort þau séu fáanleg þar lengur. En ég sá í Pennanum um daginn spjöld með bíltegundum. Í Spilavinum fann ég svo bílabingó sem eru blöð með ýmsum myndum og strika þarf yfir með blýanti.
  • Bílaleikurinn
    Þessi er líka mjög vinsæll. Hver farþegi “eignast” bíl sem kemur á móti og keppni er um flottasta bílinn í hverri umferð. Samið er um hver byrjar og fær hann næsta bíl sem kemur á móti, næsti farþegi fær næsta bíl og svo koll af kolli þar til allir hafa fengið bíl og þá er dæmt hver vann. Þessi leikur hentar þó ekki í mjög mikilli umferð.
  • Gulur bíll
    Það getur verið gaman að telja alla gula bíla sem sjást á ferðalaginu. Í einni Flórídaferð fjölskyldunnar taldi eldri sonur minn alla gula bíla sem hann sá og hann á 3 vikum var hann kominn í mörg hundruð.
    Það er auðvitað hægt að hafa þetta hvaða lit sem er á bíl eða gera þetta að keppni, hver farþegi fær sinn lit til að telja og sá sem telur flesta vinnur.
  • Sögur og tónlist
    Að hlusta á tónlist sem börnin hafa gaman af og syngja með eða hlusta á skemmtilegar sögur getur gert bílferðina mun betri. Ég setti saman tvo playlista á Spotify, annan með tónlist og hinn með sögum sem gott er að hafa á ferðalagi eða heima og ykkur er velkomið að nýta ykkur.
  • Krakkalög í bílinn
  • Sögur í bílinn
  • Spjaldtölva
    Auðvitað er líka alltaf hægt að grípa í spjaldtölvuna fyrir þá sem eiga slíka og leyfa börnunum að horfa eða fara í þroskandi og skemmtilega leiki. En mörg börn verða bílveik við það svo það er ekki alltaf góður kostur, t.d. þola okkar börn það ekki og því notum við frekar það sem talið eru upp hér að ofan.
  • Nesti & stopp
    Gott nesti er líka mikilvægt að hafa með, sumir maula í bílnum en aðrir stoppa til þess að fá sér nesti. Á löngum ferðalögum er einmitt mikilvægt að stoppa og fara út úr bílnum, borða og hlaupa jafnvel aðeins um. Þá eru allir endurnærðir þegar lagt er af stað aftur.
    Dæmi um nasl og nesti sem okkur finnst gott er að hafa með

    • Rúsínur í litlum pökkum
    • Saltstangir eða saltkringlur
    • Niðurskornir ávextir í boxi eða zip lock poka
    • Skvísur með ávaxta/grænmetismauki
    • Hafrakex
    • Seríos, hafrakoddar eða stafamorgunkorn í box eða zip lock poka
    • Orkubitar eða stangir
    • Þurrkað ávaxtanammi
    • Samlokur með næringarríku og góðu áleggi
    • Vefjur með t.d. kjúkling og grænmeti