1 árs +,  Afmælisveislan,  Fyrir alla fjölskylduna

Barnasæla

_MG_9773

Tengdamamma mín gerir heimsins bestu hjónabandssælu, á því leikur enginn vafi og uppskriftin er mér afar kær, en hún er full af sykri og sykraðri sultu bara svona eins og gengur og gerist með þessar gömlu góðu kökur. Ég ákvað því að nota uppskriftina hennar og búa til aðeins hollari útgáfu sem vel má gefa litlum börnum smakk af án þess þó að fylla þau af sykri. Í stað þess að nota hefðbundna rabbabarasultu eins og venjan er í svona köku bjó ég einnig til sykurlausa sultu, en ég átti rabbabara og afþví allir á mínu heimili hreinlega elska hindber ákvað ég að gera hindberjasultu sem hentar fullkomlega með. Afvþí að uppskriftin var hollustuvædd með börn í huga ákvað ég að kalla þetta barnasælu frekar en hjónabandssælu.

Þetta er nokkuð stór uppskrift sem mætti vel helminga, en mér finnst passa vel að gera eina stóra köku sem fjölskyldan gæðir sér á t.d. yfir helgi og nokkrar í lítil muffins form sem er tilvalið að setja í frysti og geta gripið í eina og eina.

_MG_9754

Hindberjasulta
300g frosin hindber
130g döðlur
1/2 dl vatn

Hindberin sett í lítinn pott ásamt vatninu og döðlurnar klippi ég niður, fyrst endilangt og svo í nokkra bita og út í pottinn. Sjóðið í 20 mínútur og svo set ég töfrasprotann ofan í og mauka aðeins. Sultuna má vel setja í hreinar sultukrukkur og geyma inni í ísskáp og nota sem venjulega sultu á t.d. ristað brauð, vöfflur, pönnukökur, út á hafragrautinn eða chia grautinn, á hrökkbrauð, með ostum eða bara hverju sem ykkur dettur í hug.

_MG_9581

Barnasæla
1 bolli hveiti
1 bollli heilhveiti
1/2 bolli kókosmjöl
1/2 bolli kókospálmasykur
1/2 bolli Erythritol
3 bollar haframjöl
1 tsk matarsódi (ég nota álfrían frá Matarbúri Kaju)
250g smjör, brætt
2 egg

Smjörið brætt á meðan öllum þurrefnunum er blandað saman, smjörinu blandað við og eggjunum síðast. Hrært vel saman. Stærð kökunnar stjórnast alveg af forminu sem notað er, en gott er að miða við það að í botninn fer 2/3 af deigi og svo 1/3 ofan á. Það er líka hægt að gera 2 kökur úr þessu með því  að nota minni form eða muffins eins og ég nefndi hér fyrir ofan.

_MG_9763

Þjappið deiginu vel í kökuform, líka upp kantana,  sykurlaus sulta sett yfir, magn fer í raun eftir smekk, en uppskriftin hér fyrir ofan er akkúrat mátulegt magn. Takið smá klípur af deginu, pressið vel saman og myljiði yfir sultuna. Það er gott að þrýsta deig mulningnum örlítið ofan í sultuna áður en þetta fer í ofninn. Bakað við 180°c á undir/yfirhita í uþb. 20-25 mínútur eða þar til kakan er orðin fallega gullin brún.

Himnesk með ískaldri mjólk og sumir heima hjá mér vilja þeyttan rjóma með sinni sneið!

_MG_9779

Litli minn var ekki lengi að ráðast til atlögu um leið og myndatöku var lokið, honum þykir voða erfitt alltaf að horfa á matinn og mega ekki fá á meðan myndað er….litli gúrmei karlinn minn 🙂