1 árs +,  6+ mánaða,  9+ mánaða,  Afmælisveislan

Banana vöfflur

_MG_2154Ljúffengar vöfflur sem passa með nánast hverju sem er. Það er vel hægt að bera þær fram með smjöri og áleggi, rjóma og sultu eða eins og hér, frískandi hindberja sultu/dressingu.  Mér finnst gott að gera vöfflurnar litlar því þá henta þær fyrir smáar hendur. Pjakkurinn minn er alsæll þegar hann fær svona í vöfflu í hönd og kjammsar á þeim eintómum með bestu lyst.
Þessar vöfflur henta líka vel í nestisboxið hjá eldri börnum. Gott að frysta og lítið mál að velgja þær aðeins í brauðristinni eftir að þær hafa þiðnað.

50g haframjöl
50g hveiti
50g heilhveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk hreint vanilluduft
1 dl vatn
1/2 dl kókosmjólk
1 egg
2 vel þroskaðir bananar
1 msk kókosolía (fljótandi)

Blandið þurrefnunum saman og leggið til hliðar. Pískið saman egg, kóksomjólk og vatn, blandið við þurrefnin ásamt kókosolíunni og stöppuðum bönununum. Hrærið vel svo deigið sé kekkjalaust.

Slettu skellt í vöfflujárnið, ég nota alltaf belgískt og bakað þar til þær eru gullnar og fínar. Það má líka steikja þær á pönnu.

Hindberjasulta/dressing
2 dl frosin hindber
2 msk kalt vatn
3-4 dropar agave síróp (má sleppa)

Berin og vatn sett í lítinn pott og suðan látin koma upp, látið krauma í 3 mínútur og bætið við agave sírópi ef ykkur finnst þurfa.
Berið fram með vöfflunum.

Okkur fannst voða gott að hella þessu bara yfir vöfflurnar eins og sírópi enda er þetta frekar þunnt.