1 árs +,  9+ mánaða

5 mínútna “lasagna”

_mg_4156Hér á heimilinu elskum við lasagna og gerum nokkuð oft, uppskriftin er einföld og fljótleg. Ég hef aldrei nokkurn tímann gert hvítu sósuna heldur hef alltaf notað kotasælu í staðinn og skipti út plötunum fyrir tortilla kökur fyrir möööörgum árum síðan.

Hér er uppskrift að svindl lasagna sem litli prinsinn minn elskar og mér finnst gott að grípa í t.d. í hádeginu eða þegar það er eitthvað í kvöldmatinn sem hentar ekki fyrir lítil börn. Ótrúlega einfalt og fljótlegt, tekur án gríns max 5 mínútur.

Hakk (60-70 g passar fyrir litla minn í eina máltíð)
Hakkaðir tómatar (ég elska þessa í glerlöskunni frá Gestus og á hana alltaf til í ísskápnum)
Kotasæla

Hakki skellt í lítinn pott og brúnað, smá slettu af sósunni hellt útá þannig þetta verði svolítið blautt (ekki samt á floti) og látið malla í 2 mínútur. Sett í skál og smá kotasælu (magn eftir smekk*) hrært saman við. Kotasælan kælir þetta um leið og því er hægt að byrja að gefa barninu þetta strax að borða.

Mér finnst gott að kaupa gæðahakk og pakka í litlar einingar í frystinn (60-70g) og þá er auðvelt að grípa í það til að nota t.d. í þetta.

Flöskurnar þessar sem ég nota alltaf innihalda töluvert mikið af sósu sem geymist ekki mjög lengi eftir opnun. Það er því líka sniðugt að frysta sósuna í litlum einingum, t.d. klakabökkum og setja svo í frystipoka og geyma, því það er synd að láta mat skemmast!  Þá er passlegt að taka út 1-2 teninga eftir stærð og nota í rétti eins og þennan t.d. eða í aðra rétti.

*ATH Kotasæla er mjög próteinrík og ekki er æskilegt að gefa börnum undir 12 mánaða próteinríkar vörur nema í mjög litlu mæli, hafðu það því endilega í huga ef þú ert með barn undir 12 mánaða. Það skaðar þó ekki að fá smá Kotasælu endrum og eins.

_mg_4188